20.03.1940
Sameinað þing: 8. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í D-deild Alþingistíðinda. (2661)

14. mál, framfærslustyrkur

Flm. (Brynjólfur Bjarnason):

Það hefir nú verið viðurkennt, a. m. k. í orði kveðnu, að ekki verði hjá því komizt, að kaup hækki frá því, sem það var fyrir stríð, því að menn geti alls ekki komizt nú af með það kaup, er þeir höfðu fyrir stríð. Það liggja nú fyrir Alþ. tvö frv. um hækkun á ellistyrk, örorkubótum og öðrum tryggingarbótum, annað frá Sósíalistafl., en hitt frá Alþfl. En ég hygg, að öllu fjarstæðara sé þó að halda, að styrkþegar geti komizt af með sama styrk sem þeir höfðu fyrir stríð. Ég hygg, að þetta sé svo mikil fjarstæða, að enginn geti haldið því fram, og ég hefi ekki heyrt því haldið fram. En samt er það nú svo í raunveruleikanum, að fátækrastyrkurinn hefir ekki hækkað, a. m. k. ekki hér í Reykjavík. Hér í Reykjavík var fátækrastyrkurinn 80 aurar á dag fyrir stríð, og hafði verið það lengi., og hann er það enn í dag. Mér er ekki kunnugt um, að nein ákvörðun hafi verið gerð um, að þessu skyldi breytt. Fyrir þessa 80 aura á dag, sem styrkþegar fá í peningum, eiga þeir að kaupa allt, fæði, ljós, hita, hreinlætisvörur og aðrar daglegar lífsnauðsynjar og svo nokkuð af fötum. Það er augljóst, að á þessu getur enginn maður lifað, það er alveg útilokað með svona lágum framfærslustyrk; það er bókstaflega sama sem að ætlast til, að allir þeir, sem verða að lifa á framfærslustyrk, t. d. hér í Reykjavík, fari hreint og beint á vergang. Hér verður þess vegna að taka í taumana.

Einhver kann nú að segja, að þetta komi bæjarfélögunum einum við og þetta sé málefni, sem Alþ. beri ekki að skipta sér af. En þetta mál hefir verið tekið fyrir í bæjarfélögunum; t. d. hefir það verið tekið fyrir í bæjarstj. Reykjavíkur. Fulltrúar Sósíallstafl. í bæjarstj. Reykjavíkur báru fram till. um að hækka framfærslustyrkinn upp í 1 kr. á dag, en þessi till. hefir verið felld. Þannig líta staðreyndirnar út. Ég fyrir mitt leyti álít þetta framferði, að halda framfærslustyrknum í 80 aurum á dag, ekkert annað en lögbrot. Samkv. framfærslul. ber hinu opinbera skylda til þess að sjá þeim farborða, sem ekki geta bjargað sér af eigin rammleik. Nú er það augljóst mál, að það er ekki að sjá neinum farborða, að fá honum 80 aura á dag og segja honum að lifa á því. Hér er því verið að brjóta framfærslul. og hér er verið að fremja lögbrot, algerlega miskunnarlaus lögbrot; lögbrot, þar sem níðzt er á þeim, sem erfiðast eiga. Ég vil nú spyrja: Kemur það Alþ. ekki við, að slíkt athæfi sé framið í bæjarfélögunum? Það virðist vera önnur skoðun, sem kemur fram í því frv., sem hér liggur fyrir Alþ. um eftirlit með bæjar- og sveitarfélögum. Þar er gengið svo langt, að hægt er að mestu leyti eftir geðþótta ráðh. ekki aðeins að setja bæjar- og sveitarfélög undir eftirlit, heldur bókstaflega setja þau undir stjórn ríkisstj. En nú, þegar svo langt er gengið að því er þetta snertir, þá vil ég spyrja: Ber Alþ. ekki að taka í taumana, þegar bæjarfélögin fremja slík lögbrot sem hér um ræðir gagnvart þeim, sem erfiðast eiga?

Ég þarf ekki að hafa um þetta fleiri orð, en ég trúi því ekki fyrr en ég tek á, að þessi till. verði ekki samþ.