17.04.1940
Sameinað þing: 19. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í D-deild Alþingistíðinda. (2675)

103. mál, innflutningur á fiskiskipum

*Flm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti! Ég mun ekki tala langt mál fyrir till. þessari, nema sérstakt tilefni getist, því að í grg. eru fram dregnar þær höfuðástæður, sem við flm. teljum styðja þetta mál. Við fim. bendum á það, að oft getur verið, að menn eigi kost á að afla sér skipa án þess að fá innanlandslán, og jafnvel án þess að láta fyrir þau gjaldeyri út úr landinu. Ég get bent á dæmi þessu til skýringar, ef hv. þm. vildu spyrja, hvernig það mætti verða, að menn gætu eignazt fiskiskip hér á landi án þess að þurfa yfirfærslu gjaldeyris. Á síðastl. ári var keypt stórt og myndarlegt vélskip til vestmannaeyja frá Belgíu (þau voru víst tvö), og fór greiðslan þannig fram, að borgað var í fríðu, ef svo mætti segja; ákveðið tonnatal af fiski, sem aflað var á skipið, var látið ganga upp í greiðsluna. Hér var því ekki um að ræða gjaldeyri, sem tekinn væri frá öðrum þörfum. Þetta er einn möguleiki, en þeir eru fleiri til. Bæði geta menn eða félög átt lánstraust erlendis, eða annað, sem dugir. Því álítum við flm., að hafa verði á því alla gát, að torvelda ekki slíkan innflutning af skrifstofulegum ástæðum, ef svo má að orði kveða. Sé hægt að fá góð fiskiskip inn í landið, ætti það að vera föst regla að leyfa þann innflutning, ef skipin geta borgað sig sjálf. Nú mun því verða til svarað, að undanfarið hafi verið leyfður innflutningur á fjölda skipa, þannig að af þeim væri borguð viss upphæð árlega. En um þetta hefir engin föst regla verið höfð, heldur hefir þetta farið eftir því, „hvernig um hefir samizt á eyrinni“ við innflutningsn. Það kostar oft mikið stímabrak að semja við n. um slíkan innflutning, og getur oft orðið til þess, að menn missi af góðum kaupum á skipum sem öðrum hlutum. Við flm. álitum því, að þingið þurfi að segja orð í þessu máli, sem sé það, að þegar svo stendur á, skuli innflutningur hæfra skipa á engan hátt torveldaður af innflutningsnefnd.

Mun ég svo ekki fjölyrða um þetta mál, því að ég tel víst að hv. þm. séu sammála um, að nauðsynlegt sé að auka skipastól landsmanna að hæfum skipum og að þetta sé leið, sem beri að fara. Þess má geta, að till. þessi var lögð fram áður en svo skipaðist á Norðurlöndum sem nú er orðið, en það ástand mun verða þrándur í götu þessa máls sem margra annara. En vert er að geta þess, að ýmsar leiðir eru enn opnar, og þó að miklir örðugleikar séu nú, getur þetta skjótlega breytzt þannig, að teppur af völdum ófriðarins hverfi, svo að till. á enn fullan rétt á sér.