17.04.1940
Sameinað þing: 19. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í D-deild Alþingistíðinda. (2679)

103. mál, innflutningur á fiskiskipum

Sigurjón Á. Ólafsson:

Áður en ég vík að ræðu hv. þm. V.- Húnv., vil ég láta í ljós þá skoðun mína, að rétt sé að vísa málinu til n., með það fyrir augum auðvitað, að n. afgreiði málið. Hv. flm. benti réttilega á þær erfiðu ástæður, sem nú eru á Norðurlöndum, en ég geri ráð fyrir, að hv. flm. hafi; aðallega haft fyrir augum möguleika á skipakaupum þaðan. En nú munu flestar þjóðir ófúsar á að selja skip, því að bæði er það, að margar þeirra hafa goldið mikið afhroð og misst mörg skip af völdum stríðsins, og eins er hitt, að skip hafa nú hækkað mjög í verði, svo að hver þykist góður að halda því, sem hann hefir. Þó tel ég rétt að athuga þessa möguleika, ef til eru.

En ég vildi ekki láta því ómótmælt, sem hv. þm. V.- Húnv. sagði um athugun á möguleikunum fyrir því, að hægt væri að selja íslenzk skip. Ég býst ekki við því, að þeir, sem hafa ráð yfir skipum, telji viturlegt að selja þau nú, því að mjög mun örðugt að fá sambærileg skip, hvað þá betri, í staðinn. Málið hefir að vísu margar hliðar. En ég tel þó nauðsynlegt, að við eigum sem stærstan skipastól, því að það getur komið okkur í koll síðar, ef við missum eitthvað af togurunum.

Ég hefi orðið þess var, þegar leitazt var við að selja skip, sem menn gjarnan vildu losna við, að þá voru sett l. frá fyrra ári, er banna að selja skip úr landi. Hæstv. ríkisstj. hefir leitazt við að fara mjög varfærnislega og leyfa ekki sölu skipa úr landinu, og ég tel, að þm. líti svo á, að ríkisstj. sé fastbundin við að leyfa ekki slíka sölu. Ég get nefnt nokkur dæmi þess, að hæstv. ríkisstj. hefir synjað um leyfi fyrir slíkri sölu, og menn líta svo á, að slíkt gildi jafnt um sölu fiskiskipa sem annara skipa.

Um nothæfi togara til síldveiða má deila aftur og fram, en skýrslur sýna, að meðalafli togara er langtum hærri en annara skipa. En hvort sá afli vegur upp á móti tilsvarandi kostnaði, fer nokkuð eftir því, hvernig síldveiðarnar ganga og hversu langt er sótt, en þegar um síldveiðar er að ræða, verður oft að fara nokkuð langt, og oft og tíðum verður afkoma togaraútgerðarinnar á síldveiðum ekki miklu lakari en annara skipa. Hins er ekki að vænta, að svona gömul skip sem sumir togararnir eru komi að sérstaklega miklum notum, þegar langt er sótt til veiða.

Ég skal ekkert fara út í þá hlið málsins, sem hefir mjög mikla þýðingu fyrir alla þá menn, sem sjómennsku stunda. Það er ekki nóg að hafa aðeins vinnu tvo mánuði ársins; sjómenn þurfa að vinna lengur en tvo mánuði á ári til þess að geta lifað. En það hefir oft gengið þannig til, að síldveiðiskipin hafa aðeins gengið tvo eða í mesta lagi þrjá mánuði ársins, og hinn tímann hafa sjómennirnir verið atvinnulausir í landi. En flestir togaranna hafa stundað veiðar lengur en flest önnur veiðiskip, oftast 9–10 mánuði á hverju ári, og þess vegna veitt sjómönnum atvinnu um lengri tíma en flest önnur veiðiskip.

Allir munu að vísu hafa hug á því að losna við þessar gömlu fleytur, og ber að því að stefna, þegar tímarnir breytast til batnaðar. En ég vil beina því til hv. þm., að þeir fari mjög varlega í það að taka undir slíka till, sem hv. þm. V.- Húnv. hefir hér komið með.