15.04.1940
Neðri deild: 36. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í B-deild Alþingistíðinda. (270)

85. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Sigurður Kristjánsson:

Það mun tilgangslaust að deila um það við hv. 2. þm. Skagf., hvort það muni réttar tölur, sem hann flutti viðvíkjandi tekjumissi ríkissjóðs ef samþ. yrði till. mín og hv. 7. landsk. á þskj. 320. En út af ummælum hans um stóryrði mín og það ábyrgðarleysi, er ég sýndi, að ég sem fjvnm. skuli koma fram með slíka till., vil ég taka það fram, að ég hefi ekki fundið að því, þótt þessi hv. þm. viðhefði stór orð, — slíkt fer eftir skapferli manna, — en hitt hefi ég sett út á, hve hann er hneigður fyrir að fylgja röngu máli. Annars voru þessi ummæli mín, sem hann reiknar til stóryrða, ekki bundin við neinn mann persónulega.

Ég tel það mjög vægilega til orða tekið, þó ég viðhafi þau orð, að það sé blátt áfram hlægilegt að koma fram með þær tölur, sem hv. frsm. tilfærði, sem sé að það myndi valda 400 þús. kr. rýrnun á tekjuskattinum, ef till. okkar hv. 7. landsk. yrði samþ.

Hv. frsm. taldi þá hlið málsins höfuðatriði, sem snýr að ríkissjóði. Þetta er misskilningur. Höfuðatriðið er, hve mikið skattgreiðendur geta borið. Að sönnu hefir kennt allmikils skoðanamunar áður á Alþ. um þetta mál; það hefir komið fram sú skoðun, að við ætlum aðeins að miða skattheimtuna við þarfir ríkissjóðs. En þegar það er athugað, að þarfir ríkissjóðs eru ekki nema að sumu leyti nauðsynlegar, heldur að allmiklu leyti ónauðsynlegir hlutir, er það bert, að þessi mælikvarði er rangur. Það eru engin takmörk fyrir því, hvað heimtað yrði af skattgreiðendunum, ef miðað væri við það, sem Alþ. treystist að láta ríkið eyða í þarfa og óþarfa. Hinn rétti mælikvarði er, hvað hægt er með sanngirni að heimta af skattgreiðendunum. Nú er það almennt viðurkennt, að skattheimta hér á landi sé komin svo langt, að ekki sé viðunandi. Alþingi hefir og viðurkennt, að þessi skattheimta fái ekki staðizt til lengdar og verði því að skoðast sem bráðabirgðaneyðarráðstöfun. Þess vegna er þetta frv., sem er framlenging á l., sem sett eru frá ári til árs, réttlætt með þeim forsendum, að þetta sé aðeins til bráðabirgða og vegna hins óvenjulega ástands. Nú þegar það er viðurkennt, að skattheimtan sé komin svona langt, eru það enn meiri sannanir fyrir mínu máli, að fyrsta atriði þessa máls sé það, hvað skattgreiðandinn er fær um.

Ég tók það fram við fyrri hluta þessarar umr., að þessi frádráttur, sem ég vil láta hækka, er samþ. af Alþ. fyrir nokkrum árum, ég hygg árið 1935, og var þá miðaður við þann kostnað, sem þá var áætlaður við framfærslu. Persónufrádrátturinn var þá lögfestur 500 kr. fyrir hvern skylduómaga um land allt, en nokkru hærri fyrir einstaklinga og hjón, en þó mismunandi eftir því hvar var á landinu. Ég fullyrti við fyrri hluta umr., að þessi frádráttur myndi því hafa verið ákveðinn hærri, ef framfærslukostnaður hefði verið sá sami og nú. Þegar nú framfærslukostnaðurinn eykst mjög mikið, væri ekkert eðlilegra en að persónufrádrátturinn hækkaði, jafnvel þótt skattstiginn væri ekki auk þess hækkaður stórkostlega. Ég verð að vita það, að fjhn. skuli ekki líta á þessa hlið málsins frekar en hún væri ekki til. Það er óforsvaranlegt, að n. skuli aðeins sjá eina hlið þessa máis, þá er að ríkissjóði snýr; ef hún hefði séð aðrar hliðar þess, hefði hún kannske borið fram einhverjar brtt. um hækkun persónufrádráttarins.

Ég þarf ekki að endurtaka það, að sú upphæð, er hv. frsm. tilgreindi, að tekjuskatturinn myndi lækka um, er gripin úr lausu lofti. Ég reyndi að mynda mér einhverjar ágizkanir um þetta atriði, en sá, að það var ekki nokkur leið af þeirri litlu þekkingu, sem ég hefi á þessum málum, og hefi ég þó um margra ára skeið fengizt við að jafna niður tekjuskatti. Ég hefi líka borið þetta undir hagstofustjóra, sem hefir manna bezta þekkingu á svona hlutum, en hann sagði, að ómögulegt væri að koma með annað en óábyggilegar ágizkanir hvað þetta snertir.

Ég minntist á það við fyrri hluta umr., að fjhn. og trúnaðarmaður hennar mundi hafa gert láð fyrir því, að þessi frádráttur yrði til þess að stýfa ofan af tekjum manna. Þetta er misskilningur, því að eins og ég tók fram, er fjöldi manna, sem aðeins eru fyrir ofan takmörkin um skattfrjálsar tekjur og greiða þetta frá 30 –60 aur. upp í 1–2 kr. Þessir menn myndu falla undan skatti, en það myndi ekki muna verulegu hvað tekjur ríkissjóðs snertir, en myndi náttúrlega nema hærri upphæðum af hærri tekjum.

Nú er gert ráð fyrir því í fjárl., að tekju- og eignarskattur muni verða um 1700 þús. kr. fá gera ráð fyrir því, að af þeirri upphæð nemi eignarskatturinn um 300 þús. kr. Ég held því fram, að það sé blátt áfram fjarstæða að áætla, að þessi breyt. á persónufrádrættinum muni stýfa tekjuskattinn, ca. 1400 þús. kr., um 400 þús. kr., eða nálega 1/3 hluta. Misskilningur n. hvað þetta snertir hlýtur að byggjast á því, að hún hefir fengið skakkan mælikvarða til þess að reikna eftir. Mikill fjöldi skattgreiðenda, þ.e. ýmis fyrirtæki, félög og þessháttar. hafa engan persónufrádrátt, og þetta eru oft hæstu skattgreiðendurnir. Annars er ekki hægt að reikna út, hve mikið af persónufrádrætti kemur í hlut hátekjumanna og hve mikið á lágtekjur, nema því aðeins að fara í gegnum allan skattstiga landsins. Eins og hagstofustjóri benti á, þá er ekki hægt að framkvæma þetta nema með geysilegri fyrirhöfn, og myndi sú vinna taka marga mánuði, ef koma ætti með útreikninga, sem hægt er að byggja á. Hitt er afarfljótlegt, að gizka á eitthvað út í loftið.

Ég mun svo ekki lengja umr. frekar. Ég tel fyllilega sanngjarnt, þegar framfærslukostnaður hefir aukizt svo stórkostlega sem nú er, að persónufrádráttur hækki nokkuð, enda er það í samræmi við fyrri skoðun Alþ. að miða persónufrádráttinn að nokkru við framfærslukostnað. Um hitt má deila, hvort hækkunin skuli nema 25%, eins og við flm. brtt. teljum sanngjarnt, og má ef til vili miðla svo málum, að við getum fallizt á, að hækkunin verði ekki svo mikil. Hinu vil ég ekki trúa að óreyndu, að þm. álíti þá hliðina á máli þessu, er að skattgreiðendum snýr, Alþ. óviðkomandi, né hve hart er að þeim gengið, en álíti hitt höfuðatriði, hve miklar tekjur er hægt að krafsa inn fyrir ríkissjóðinn með allskonar sköttum. Ég vil ekki trúa því, að meiri hluti þm. hafi það kalda og óviturlega sjónarmið, og vænti þess því fastlega, að þeir verði fleiri, er greiða till. okkar atkv.