15.04.1940
Neðri deild: 36. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í B-deild Alþingistíðinda. (274)

85. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Sigurður Kristjánsson:

Ég vil aðeins út af því, sem hv. 2. þm. Skagf. sagði um þær ráðstafanir, sem gerðar hefðu verið til kauphækkunar fyrir almenning í landinu, minna á það, að hér er alls ekki um fulla hækkun að ræða á móti dýrtíðinni. Í öðru lagi má minna á það, að þessi kauphækkun kemur til skatts, þannig að ríkið tekur nokkurn hluta af þessari hækkun aftur. Út af þeim dæmum, sem hv. frsm. nefndi, vil ég taka það fram, að þar er reiknað með því, að séu 5 persónufrádrættir, en það munar náttúrlega miklu, hvort um 5 manna fjölskyldu er að ræða, einhleypan mann eða hjón, sem ekki hafa neinn á framfæri.

Hv. frsm. kom inn á það, að það væri nokkuð mikið ábyrgðarleysi að ætla þannig að rýra tekjur ríkissjóðs, og fékk hæstv. fjmrh. til að segja sitt álit þar um, en hann taldi ekki fært að mæla með brtt. Það kemur víst mjög sjaldan fyrir, að fjmrh. mæli með slíku, en ég vil minna hv. þm. á það, að hann er sjálfur flm. að næsta máli, sem á dagskrá er, og þar gerir hann ráð fyrir, að ríkissjóði skuli blæða vegna jarðakaupa um 350 þús. kr., og eru það einskonar tilraunaframkvæmdir, en þessi till. mín fer ekki fram á, að fé sé lagt fram í neitt, sem fer forgörðum, heldur aðeins til að jafna á milli ríkissjóðs og einstaklinga.