16.04.1940
Efri deild: 37. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

117. mál, veðurfregnir

*Atvmrh. (Ólafur Thors):

Með þessu frv. er farið fram á, að fresta skuli, þar til öðruvísi verður ákveðið af ríkisstj., lögum um útvarp og birtingu veðurfregna. Eins og hv. þdm. er kunnugt, hefir ríkisstj. hlutazt til um, að fyrst um sinn verði breytt um framkvæmd á birtingu veðurfregna, af ástæðum, sem fram eru teknar í aths. við lagafrv. þetta. Stjórnin telur, að nauðsynlegt sé, til þess að hún geti gert þetta á lögformlegan hátt, að fá heimild Alþingis til þess að fresta þeirri löggjöf, sem hér er farið fram á að fresta, en í þeim lögum er mælt fyrir um, hvernig haga skuli birtingu veðurfregna.

Ég leyfi mér að mælast til þess, að hv. deild afgr. þetta svo fljótt sem föng eru á, og vænti, að ekki verði um það neinar deilur.