16.04.1940
Efri deild: 37. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í B-deild Alþingistíðinda. (296)

117. mál, veðurfregnir

Jóhann Jósefsson:

Þetta mál ber hér nokkuð brátt að, og þó ekki bráðara en þm. gátu vænzt, þar sem vitað er, að hv. ríkisstj. hefir, án þess að bera það undir þingið, stigið það spor, sem á að heimila með þessum lögum, og hefði ég fyrir mitt leyti álitið það rétt, að löggjöfin hefði á undan gengið; þrátt fyrir það, þótt vitað sé, að hér er verið að beygja sig fyrir ofbeldi og erlendu valdi, finnst mér algerlega óþarft að ganga á snið við Alþingi.

Þetta hlýtur að vera nokkuð mikið hryggðarefni þeim mönnum, sem börðust fyrir því að fá komið hér á því skipulagi um veðurfregnir, sem tíðkast meðal siðaðra þjóða. Nú er þetta niðurbrotið í bili, og vildi ég, að stj. vildi beita sér fyrir því, að sem fyrst yrði byrjað aftur að útvarpa veðurfregnum á íslenzku máli til sjómanna. Það hefir svo óendanlega mikla þýðingu fyrir alla okkar sjósókn og aflabrögð að fá veðurfregnirnar, og ég á bágt með að skilja þann taugaóstyrk, sem kemur fram í því, að krefjast þess, að Íslendingar útvarpi ekki á sínu eigin máli.

Hér er ekki verið að afgr. neitt af fúsum vilja, heldur er verið að beygja sig undir ok. Þó það sé ekki sagt í grg. frv., er það á vitund allra, og þess vegna þýðir ekkert að ræða um það, en hinsvegar vildi ég mega vænta þess af hæstv. ríkisstj., að á meðan Alþingi situr séu ekki stigin slík spor, án þess að það fái að vita um það.