16.04.1940
Efri deild: 37. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

117. mál, veðurfregnir

*Magnús Jónason:

Aðeins út af því, sem hér hefir komið fram, vil ég lýsa yfir því, að ég mun fylgja þessu frv. algerlega út frá þeim aths., sem fylgja frv. stj. Þar segir svo: „Ríkisstjórnin telur brýna nauðsyn bera til lagasetningar þeirrar, er í frumvarpi þessu felst, vegna ástands þess, er nú ríkir í alþjóðamálum, og vegna hlutleysisafstöðu Íslands. Er það og í samræmi við það, er margar hlutlausar þjóðir hafa þegar gert fyrir löngu.“

Ég vil ekki vera að leiða neinum getum að því, að hér muni vera um neitt valdboð að ræða, og mundi mér ekki þykja aðgengilegra að samþ. það með því að búa slíkt til. Ég mun því fyrir mitt leyti greiða atkv. með þessu frv. út frá því einu, að við höfum sömu afstöðu sem margar aðrar hlutlausar þjóðir, að við kærum okkur ekki um að leiðbeina flugvélum, kafbátum og öðrum vágestum, og að nauðsyn beri til þess vegna hlutleysisafstöðu landsins að setja þetta í lög, svo sem sagt er í grg. ríkisstj. með frv.