26.03.1940
Efri deild: 21. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í B-deild Alþingistíðinda. (310)

84. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Um þetta mál og næsta mál á dagskránni skal ég geta þess, að þau hafa orðið nokkuð síðbúin, og stafar það að nokkru leyti af því, að nokkuð var í óvissu um það, hvaða ráðstafanir og varúðarráðstafanir nauðsynlegt þætti að gera í sambandi við greiðslur úr ríkissjóði á næsta ári og tekjuþörfina. hað var þess vegna hinkrað við með þessi frv. að leggja þau fyrir hv. d., en nú er komið á síðustu daga þingsins, svo það er nauðsynlegt, að þessum málum verði hraðað. Þau eru hinsvegar eins úr garði gerð og á síðasta þingi. Á síðasta þingi var gerð nokkur breyt. á frv. um bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga, sem er næsta mál á dagskrá, en ég geri ráð fyrir, að það muni verða samkomulag um það nú, eins og var á síðasta þingi, að því er þessa breyt. snertir.

Ég vil sérstaklega taka það fram að því er frv. um bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs snertir ég vænti þess, að hæstv. forseti hafi ekkert á móti því, að ég tali um það mál um leið að ég fyrir mitt leyti og við ráðh. Sjálfstfl. höfum að vísu haft tilhneigingu til þess að gera á því nokkrar breyt., en það hefir hinsvegar orðið að samkomulagi í ríkisstj. að leggja þessi mál fyrir þetta þing eins og gert hefir verið á undanförnum árum, bæði vegna þess, að ríkissjóður má ekki eins og nú er komið missa tekjur þær, sem hann hefir haft, og hinsvegar er það ekki undirbúið að sjá honum fyrir tekjum í staðinn.

Ég geri ráð fyrir, ef stjórnarsamvinnan helzt, að þá verði teknar upp tilraunir til þess að komast að einhverju samkomulagi um fyrirkomulag skattakerfisins. en þessi mál eru eins og kunnugt er í mþn. til athugunar, svo það er ekki ástæða til að gera þar neinar breyt. fyrr en hún hefir lokið störfum.

Ég vænti þess svo, að hv. d. afgreiði bæði þessi mál á venjulegan hátt, og þeim verði að lokinni þessari umr. vísað til n., sem væntanlega verður fjhn.