17.04.1940
Neðri deild: 42. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í B-deild Alþingistíðinda. (333)

84. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Það eru nokkrir liðir í þessu frv., sem ég vildi leggja til, að yrðu felldir burt. Það er í fyrsta lagi 3. liðurinn, um ágóðann af tóbakseinkasölunni. Það var upprunalega svo ákveðið, að tekjum af tóbakseinkasölunni skyldi varið til bygginga í landinu. Það er búið að bregðast því að framkvæma þetta í 7–8 ár. Og þótt nú líti svo út með byggingar sem raun er á, þá er þess vegna ekki minni ástæða til að tryggja, að þegar hægt yrði aftur að hefjast handa um byggingar, þá yrði til eitthvert fé til bygginga fyrir þá, sem harðast verða úti, sem sé þann hluta verkalýðsins, sem verkamannabústaðirnir eru ætlaðir fyrir. Ég vildi þess vegna leggja til, að felldur yrði niður þessi 3. liður og tekjurnar af tóbakseinkasölunni yrðu látnar renna til byggingarsjóðs verkamanna og byggingarsjóðs sveitanna, eins og upphaflega var ætlazt til.

Ennfremur flyt ég till. um, að sú nýja gr., sem bætt hefir verið við frv., falli burt, og eins 12. gr., og þar með sé tryggt, að þau framlög, sem áður áttu að renna til byggingar- og landnámssjóðs, verði látin renna þangað áfram. Einnig hefi ég lagt til, að 16. gr. verði felld burt. Nú er að vísu búið að ganga þannig frá fjárl. fyrir 1941, að þetta er öfugt við þau. Ég geri líka ráð fyrir, að fylgismenn ríkisstj. beri því við. En ég vil í því sambandi benda á, að það er óforsvaranlegt að afgr. fjárlög þvert ofan í gildandi l., svo ég þykist vera í eins miklum rétti með að bera fram þessa brtt. nú eins og meiri hl. var með að samþ. fjárl. eins og þau voru afgr. þvert ofan í gildandi lagafyrirmæli.

Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta, en vildi biðja forseta að leita afbrigða fyrir þessar till.