17.04.1940
Neðri deild: 41. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í B-deild Alþingistíðinda. (359)

86. mál, ríkisreikningurinn 1938

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Ég vildi gera að umtalsefni eitt alveg sérstakt atriði í reikningunum. Það er atriði, sem endurskoðunarmennirnir hafa gert aths. við og ég hefi áður minnzt á og nauðsynlegt er að taka til rækilegrar yfirvegunar, og það er, hvernig þeim auglýsingum er varið, sem hið opinbera hefir með að gera. Á árinu 1938 hefir áfengisverzlun ríkisins greitt í auglýsingar kr. 9845.73 og tóbakseinkasalan kr. 4420.80. Það er ennfremur vitanlegt, að fjöldi embættismanna hefir með þessar auglýsingar að gera. Það væri nú ekkert við því að segja, ef þessir embættismenn ráðstöfuðu auglýsingunum sem sjálfstæðir starfsmenn og embættismenn, en hinsvegar er það vitað, að ákveðin klíka hefir seilzt til þess að taka þessi ráð af embættismönnunum, og hefir hún gefið skipun út til þeirra um það, hvernig skuli ráðstafa þessum auglýsingum. Bæði forstjórum áfengisverzlunarinnar og tóbakseinkasölunnar og tollstjóra er meinað að gera ráðstafanir til þess að haga þessum auglýsingum á venjulegan hátt. Þeim er bannað það af valdakóngum þjóðfélagsins. Þess vegna koma skipanir til þessara embættismanna frá þeim, sem standa fremstir í stjórnmálaflokkunum, um að styðja blöð ríkisstjórnarinnar. Og þess vegna kom það fram hjá viðskmrh. í fyrra, að þessar auglýsingar bæri að skoða sem styrk til ákveðinna blaða í landinu, og vil ég taka það fram, að þessi aðferð og það, hvernig vaðið er uppi gagnvart embættismönnum þjóðarinnar, er beinlínis þjófnaður. (Forseti hringir). Ég vil algerlega mótmæla því, að meðan allir menn eiga að vera hér jafnréttháir, skuli ekki allir hafa jafnan rétt á því að sjá auglýsingar. Það er hart, að þeir, sem standa að blöðum eins og t.d. Þjóðviljanum, skuli ekki mega sjá aðrar eins auglýsingar eins og þegar lögreglustjóri auglýsir um sleðaferðir barna, — þegar auglýst er, hvar börn megi renna sér á sleðum og hvar ekki, mega lesendur Þjóðviljans ekki sjá það. Þegar svona er komið, er ríkisstj. farin að líta á ríkissjóðinn sem sinn prívat sjóð, eins og eitthvað, sem hún geti ráðstafað eftir geðþótta og hent í sína eigin flokksmenn. Hún er eins og ræningi, sem skiptir sjóðunum milli flokksbræðra sinna. (Forseti hringir). Ég vil algerlega mótmæla aðferð eins og þessari. Það nær vitanlega ekki nokkurri átt, ef Íslendingar eiga að vera jafnir fyrir lögunum og eiga rétt á að gefa út blöð, að hið opinbera auglýsi ekki jafnt í þeim blöðum. Ég skal upplýsa þá menn, sem telja sig vera að vernda lýðræðið hér á landi, um það, að annarstaðar á Norðurlöndum fer hið opinbera ekki eins að með auglýsingar. Þeir, sem hafa með þær að gera, gera sér það ekki til skammar að auglýsa ekki í öllum blöðum jafnt. Menn geta séð á kommúnistablöðunum í Osló, sem ekki eru mjög útbreidd, hvernig menn líta á þetta í því þjóðfélagi. Þar virðist ekki vera sama skoðunin eins og hér. Hérna er það skoðun þeirra, sem með völdin fara, að hver sá flokkur, sem kemst í valdaaðstöðu, geti ráðstafað ríkissjóðnum á sama hátt og valdaklíkan gerir með embættin. Þessi klíka álítur sig hafa sérstakan rétt til þess að láta sína eigin skoðanabræður ganga fyrir öllum embættum. Þó hefir þetta Alþingi lýst sig andvígt skoðanakúgun, með því að fella tillögu frá hv. þm. S.-Þ., sem er upphafsmaðurinn að því að skipuleggja skoðanakúgun á Íslandi. Hér er verið að gera sérstaka verzlun. Þegar Sjálfstfl. varð stjórnarflokkur, var samið um það, að bæjarstjórn Reykjavikur skyldi auglýsa í blaði Framsfl., Tímanum, og hinsvegar að ríkisstj. skyldi auglýsa meira en áður í Morgunbl. og vísi. Það var samið um það, að annar aðilinn skyldi láta bæjarsjóð Reykjavíkur hjálpa til að borga útgáfu Tímans, og að hinn aðilinn skyldi styrkja Mbl. og vísi meira en verið hefði.

Ég vildi með þessu benda á það, að hér í okkar þjóðfélagi eru þeir, sem með völdin fara, að færa sig meira og meira upp á skaftið með það, að líta á ríkissjóðinn sem nokkurskonar flokkssjóð, sem þeir geti ráðstafað til sinna flokksmanna, til þess svo að geta hangið lengur áfram við völd í landinu.