17.04.1940
Neðri deild: 41. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í B-deild Alþingistíðinda. (360)

86. mál, ríkisreikningurinn 1938

*Steingrímur Steinþórsson:

Ég ætla ekki að fara að tala almennt um ríkisreikninginn eða aths. endurskoðenda við hann, en ég get þó ekki látið hjá líða að nefna 4. aths., þar sem talað er um, hve launagreiðslur fari mikið fram úr því, sem tilfært er á starfsmannaskrá. har er tilfært, að Búnaðarfélagið hafi átt að greiða 62 þús. kr. í laun, en hafi greitt 89 þús. kr. Nú veit ég, að þetta er mesta fjarstæða, og hefi ég hér með reikninga Búnaðarfélagsins prentaða og hefi tekið upp launagreiðslur félagsins, en þær eru ekki yfir 64 þús. kr. Ég hygg, að endurskoðendunum hafi fatazt í því að taka allan ferðakostnað starfsmanna Búnaðarfélagsins með inn í launagreiðslurnar, en slíkt nær auðvitað ekki nokkurri átt. Og mér þykir nokkuð hart, að yfirskoðunarmenn skuli koma með aðfinnslur og vísa því til Alþingis, sem er svona mikil fjarstæða, eins og reikningur Búnaðarfélagsins ber með sér, og hefðu þeir átt að athuga það, að hér eru ekki greiddar 27 þús. kr. fram yfir það, sem gert er ráð fyrir, heldur aðeins um 2 þús. kr. Hvort þeir hafa tekið ferðakostnað með sem laun, veit ég ekki, eða hvort þeir taka námsstyrki og telja þá sem laun, en náttúrlega dettur engum í hug að taka slíkt inn á starfsmannaskrá.

Ég tel ekki rétt að vísa athugasemdum eins og þessum, sem ekki eru á áreiðanlegum rökum byggðar, til Alþingis.