22.04.1940
Efri deild: 45. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í B-deild Alþingistíðinda. (375)

86. mál, ríkisreikningurinn 1938

Jóhann Jósefsson:

Hér hefir nú lítið verið minnzt á þetta mikla mál, sem um er fjallað, ríkisreikninginn. Hann liggur nú hér fyrir ásamt aths. endurskoðenda, og virðist mér sem þeim hafi þótt svör viðkomandi ráðh. ófullnægjandi og hafa vísað til aðgerða þingsins. En af því að einn af endurskoðendum á sæti í þessari hv. d., þá væri fróðlegt að heyra hans álit um það, hvernig hann hefir hugsað sér, að þær aðgerðir ættu að vera. Ég vil taka nokkur dæmi úr 5. aths. við landsreikninginn, þar sem kvartað er yfir því, að gjöldin við útvarpið séu 74 þús. kr. hærri en fjárl. heimiluðu, og sem svar við því er prentað hér: að aths. gefi ekki ástæðu til svars, að undanskildu niðurlaginu. Þessu telja endurskoðunarmenn sig ekki samþykka og vísa til aðgerða þingsins.

Ennfremur má benda á 8. aths., þar sem sýnt er fram á, hversu háar upphæðir séu útistandandi hjá ýmsum ríkisstofnunum, og þær taldar óhæfilega háar. T. d. hjá áfengisverzluninni 127 þús. kr., hjá tóbakseinkasölunni (ég sleppi hundruðunum) 181 þús., hjá bifreiðaeinkasölunni 12 þús., hjá viðtækjaverzluninni 310 þús. kr., hjá ríkisprentsmiðjunni Gutenberg 112 þús. kr., hjá landssmiðjunni 42 þús. kr., hjá landsverzlun Íslands 182 þús. kr., hjá raftækjaeinkasölunni 493 þús. kr. Það er um það spurt í aths., hvort ekki hafi verið gerð gangskör að því að innheimta þessar skuldir. Svarið hjá ráðuneytinu er ákaflega stutt, og þar er því haldið fram, að ráðuneytið líti svo á að engin óeðlileg útlánastarfsemi hafi átt sér stað, m.ö.o., að það sé eðlilegt, að raftækjaeinkasalan eigi um 1/2 millj. kr. útistandandi; að það sé eðlilegt. að viðtækjaverzlunin eigi um 300 þús. kr. útistandandi, o.s.frv. yfirskoðunarmenn hafa líka, eins og skiljanlegt er, látið það í ljós, að þeir séu ekki sömu skoðunar og ráðuneytið um nauðsyn þessarar útlánastarfsemi og vísa til aðgerða þingsins. Svo eru margir smærri liðir, þar sem þó er um nokkuð stórar upphæðir að ræða; ég vil t.d. benda á, að áfengisverzlunin hefir eytt í auglýsingar einar 10 þús. kr. við því er var ráðuneytisins, að auglýsingakostnaður geti ekki talizt mikill, en yfirskoðunarmenn telja samt, að eitthvað mætti draga úr kostnaðinum, og er ég því samþykkur. Stærri aths. fá heldur létta yfirvegun hjá ráðuneytinu, og er ýmist af því eða yfirskoðunarmönnum vísað til aðgerða Alþ. Ýmsar stofnanir eiga um 2 millj. útistandandi, en ekki hefir borið neitt á aðgerðum þingsins í þessu efni. Mér þætti fróðlegt að heyra álit þess hv-. þm. í þessari d., sem skipar eitt sæti yfirskoðunarmanna, um þessi stóru atriði, og hvað hann hefir hugsað sér sem yfirskoðunarmaður ríkisreikningsins, og hvernig hann ætlast til, að Alþ. geri ráðstafanir til þess að lagfæra þetta. Það er að vísu gott að hafa þessar upplýsingar skjalfestar, en það verður að líta svo á, að aðgerðir Alþ. hljóti að eiga að vera veigameiri heldur en þessi fáu orð, sem sé að vísa til aðgerða þingsins. Ef slíkt yrði látið nægja, þá gætu hverskonar umframgreiðslur í ríkisrekstrinum sloppið við alla gagnrýni, ef það í öllum tilfellum væri látið nægja, að ráðuneytið svaraði út í hött, eins og mér virðist hér vera gert.

Ég skal að þessu sinni ekki minnast á fleiri aths., en það væri fróðlegt að heyra álit yfirskoðunarmanns landsreikn. um þessi mál.