01.04.1940
Efri deild: 26. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í B-deild Alþingistíðinda. (378)

99. mál, lækkun lögbundinna gjalda

Páll Zóphóníasson:

Ég hafði vænzt þess, að hæstv. fjmrh. fylgdi frv. úr hlaði, en ég sé, að svo er ekki. Hinsvegar get ég ekki annað en óskað eftir nokkrum útskýringum um einstök atriði frv., og sömuleiðis verð ég að láta í ljós undrun mína yfir því, að frv. skuli vera fram komið.

Þau atriði, er ég óska útskýringa á, og ég geri ráð fyrir, að einhver svari f.h. ráðh., úr því hann er ekki viðstaddur, er a-liður undir 1, að fella skuli niður greiðslu á 35% af framlögum ríkissjóðs samkv. fjárl. til byggingarsjóðs, sbr. II. kafla I. um byggingar- og landnámssjóð. Nú höfum við nýlega samþ. annað frv., sem sent hefir verið Nd., þar sem gert er ráð fyrir, að framlag ríkissjóðs, sem í fjárl. er ákveðið 200 þús. kr., lækki um 75 þús. kr., eða í 125 þús. kr. Nú spyr ég: Er meiningin að miða þessa 35% lækkun við 125 þús. kr. eða upprunalegu upphæðina? Mér skilst, að miðað muni vera við 125 þús. kr., og er þá framlag ríkissjóðs þannig orðið helmingi lægra en lögin gera ráð fyrir.

Þá er c-liður, að lækka um 35% framlag ríkissjóðs til nýbýla og samvinnubyggða, og er vitnað í IV. kafla, 34. og 37. gr., laganna um byggingar- og landnámssjóð. Mér skilst, að með þessari breyt. sé verið að grípa fram fyrir hendur nýbylastj. og segja henni fyrir verkum: Látið hvern einstakling fá 35% lægra lán, en jafnmarga fá lán og áður.

Þá er ætlazt til, að jarðræktarstyrkurinn lækki um 35%. Þetta er ákvæði, sem ég get undir engum kringumstæðum fellt mig við, enda ekki samrýmanlegt stefnu síðasta þings og þess þings, er nú situr, sem fram að þessu hafa alltaf látið klingja, hve nauðsynlegt það sé að útvega atvinnuleysingjunum vinnu í sveit, koma upp handa þeim býlum o.s.frv. Á sama tíma segir Alþingi: Takið þið við fólkinu, en við styrkjum ykkur ekki til bygginga, vil lækkum meira að segja til bankanna, svo að þeir eigi erfitt með að lána, við skerum niður jarðabótastyrkinn og tökum á þann hátt fyrir allar jarðræktarframkvæmdir.

Ég vil þá enn árétta spurningar mínar til hæstv. ráðh., þar sem hann nú hefir sýnt sig í deildinni:

1) Miðast 35% lækkunin við 125 þús. kr. eða 200 þús. kr. skv. a-lið? Í bráðabirgðabreyt. nokkurra laga, á þskj. 118, er framlagið þegar lækkað um 75 þús. kr., í 125 þús. kr. Miðast þá 35% lækkunin við þá upphæð?

2) Í c-lið er vitnað í ákveðnar greinar l. um byggingar- og landnámssjóð. Eru það tillög til einstaklinga, sem eiga að lækka? Nú ber öllum saman um, að með 3500 kr. láni og styrk sé róður fyrir nýbýlamennina mjög harður. Ef nauðsynlegt er að spara á þessum lið, ættu vitanlega færri að fá styrkinn, en ekki að lækka styrk til hvers einstaklings, þar sem það er einnig miklu dýrara en áður að koma upp nýbýlum.

Ég mun ekki vera því mótfallinn, að máli þessu sé vísað til n., en fylgi mitt á það ekki eins og það er nú, og ég tel ekki líklegt, að því verði breytt í það horf, að ég fylgi því.