01.04.1940
Efri deild: 26. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í B-deild Alþingistíðinda. (379)

99. mál, lækkun lögbundinna gjalda

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Þetta frv. er fram komið í sambandi við þá meðferð fjárl., sem að ráði hefir orðið að hafa á þingi, og þær breyt., sem gerðar hafa verið á stjfrv. Eins og hv. dm. muna, var í stjfrv. upphaflega gert ráð fyrir minni framlögum til ýmsra framkvæmda í landinu vegna óvissra tekna ríkissjóðs í ár og á næsta ári. Hér er ekki um það að ræða, hvað menn vilja leggja til þessara framkvæmda, heldur getuna. Ef engar tekjur koma í ríkissjóðinn, verður ekki hægt að leggja neitt fram þrátt fyrir góðan vilja. hað, sem ég fer fram á með frv. þessu, er heimild fyrir stjórnina að kippa að sér hendinni, ef engir möguleikar eru fyrir hendi að standa við greiðslur skv. fjárl. Það er því ekki rétt hjá hv. 1. þm. N.-M., að með þessu frv. sé verið að ákveða hitt og þetta, heldur er hér aðeins um heimild til lækkunar að ræða, ef óhjákvæmilega nauðsyn ber til. Þegar frá ófriðarbyrjun hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að mæta þeim skakkaföllum, sem kynnu að mæta þjóðinni í viðskiptum hennar við aðrar þjóðir. Það hefir meira að segja verið talað um þann möguleika, að landið yrði ef til vill að mestu leyti að búa að sínu, en þá myndu tekjur ríkissjóðs skerðast svo stórkostlega, að jafnvel þótt þessi 35% lækkunarheimild yrði notuð til hins ýtrasta, gæti svo farið, að fullhart yrði að standast öll útgjöld samkv. fjárl. Það er aðeins til þess að mæta slíkum erfiðleikum, að farið er fram á þessa heimild, en auk þess eru áfallnar kröfur á ríkissjóð mjög miklar, sem erfitt verður að standa straum af nema úr rakni.

Hv. 1. þm. N.-M. spurðist fyrir um, hver meiningin væri með þessum till., sérstaklega að því er snertir 1. lið, hvort lækka ætti um 35% frá því, sem er í fjárl., framlag ríkissjóðs til byggingarsjóða. Það er vitanlega meiningin, að heimildin nái til þess. Í fjárl. eru ætlaðar 125 þús. kr. í þessu skyni, en samkv. heimildinni er hægt að lækka framlag ríkissjóðs um 35% frá því. Sama er að segja um aðra liði í heimildartill. Fóru fram umr. um þetta mál í ríkisstj. og einnig var rætt við fulltrúa frá fjvn., og skildist mér, að það hefði orðið að samkomulagi, að í staðinn fyrir, að upphæðirnar voru hækkaðar í fjárl., kæmu slíkar heimildir til lækkunar, ef í nauðir ræki. Ég tók það fram, að ef lægri upphæðirnar væru látnar standa í fjárl., virtist mér sjálfsagt að taka áætlunarupphæð til þess að bæta þetta upp, ef vel áraði og tekjur ríkissjóðs leyfðu, en fulltrúar fjvn. kusu heldur, að sú leið yrði farin, sem ég lýsti áðan.

Nú gaf ræða hv. 1. þm. N.-M. tilefni til þess að vekja athygli á, að það er ekki einungis, að nauðsyn geti brotið lög, heldur getur það meira að segja verið nauðsynlegt — þótt ríkissjóður fengi þær tekjur, sem því svaraði að standast útgjöld fjárl. En þess að þessi lækkunarheimild komi til framkvæmda, — að beina því fé inn á aðrar brautir. Hv. þm. minntist á atvinnuleysið í kaupstöðunum og að nauðsyn bæri til að beina vinnu þessara atvinnuleysingja að verkefnum í sveitum. En það eru ekki neinar heimildir til þess í lögum. Ef ríkisstj. hinsvegar hefir nokkra fúlgu til umráða, er hægt að fá þeim verkefni í sveit, eins og t.d. að koma af stað undirbúningi til nýbýlastofnunar. Ef taka á stór svæði til jarðræktar, er ekki hægt að gera það samkv. jarðræktarlögum, heldur verður að framkvæma það eftir sérstökum ráðstöfunum þings og stjórnar. Þannig getur það verið hagkvæmt, enda þótt fé sé fyrir hendi til þess að greiða til fullnustu framlög skv. fjárl., að unnt sé að beina því inn á aðrar brautir. Annars hélt ég, að þetta mál þyrfti ekki að vera sérstakt deilumál, og hygg, að það sé af misskilningi sprottið, ef svo verður. Frv. er þannig undirbúið, að ég hélt, að menn gætu orðið sammála um það. Auk þess á það eftir að fara til n., og er ég að sjálfsögðu reiðubúinn til þess að fylgjast með afgreiðslu þess þar. Er nógur tíminn við 2. umr. að ræða þá agnúa, sem kunna að verða á því þá.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og fjhn.