22.04.1940
Efri deild: 45. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í B-deild Alþingistíðinda. (386)

99. mál, lækkun lögbundinna gjalda

*Erlendur Þorsteinsson:

Ég hefi skrifað undir nál. með fyrirvara, og vil ég gera grein fyrir honum með nokkrum orðum.

Ég vildi ekki kljúfa mig frá n., vegna þess að ég taldi brtt. hennar til bóta á frv., en ég er hinsvegar á móti frv. í heild. Ég greiddi atkv. gegn því í Sþ. við afgreiðslu fjárl. að veita ríkisstj. heimild til 35% niðurskurðar, vegna þess að ég lít svo á, að ef það ástand skapast, sem gerir sérstakar ráðstafanir nauðsynlegar, þá sé ekki rétta leiðin að draga úr útgjöldunum, heldur verði ríkisstj. þá að leita nýrra tekna. Það er vitanlegt, að ef slíkt ástand skapast, þá verður ríkisstj. að taka við fjölda, sem sjá þarf fyrir. Ég tel þess vegna ekki rétt að fara að gera ráðstafanir nú viðvíkjandi slíku ástandi, heldur yrði Alþ. þá kvatt saman til ráðagerða. Ég hefi leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 543 um, að 3. liðurinn falli niður, en sá liður miðar að því að lækka framlag til byggingarsjóða, þannig að það verði miðað við kr. 1.30 á hvern íbúa kaupstaða, en að framlag sveitarfélaganna til sjóðanna lækki að sama skapi. Í 4. lið er einnig farið fram á að láta tekjuauka þann, sem gert er ráð fyrir í 2. gr. 1. um bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga, að renni til byggingarsjóðanna, renna beint í ríkissjóð. Ég get ekki fallizt á, að þetta hvorttveggja verði tekið af byggingarsjóðunum, og sérstaklega þó ekki það, sem talað er um í 3. liðnum, vegna þess að það snertir aðra gjaldendur til sjóðanna líka.

Ég mun greiða atkv. með brtt. á þskj. 541, en hinsvegar mun ég greiða atkv. gegn frv. í heild, ef till. mín nær ekki samþykki.