22.04.1940
Efri deild: 45. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í B-deild Alþingistíðinda. (389)

99. mál, lækkun lögbundinna gjalda

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það er til sú miðlunarleið í þessu máli, að jarðræktarstyrkur skuli lækkaður. En ég verð að segja það, eins og hæstv. fjmrh. tók fram, að það stendur nokkuð öðruvísi á um þetta en aðrar lækkanir, sem fram á er farið í frvgr. því að þetta yrði hrein lækkun á greiðslu jarðræktarstyrksins, en ekki aðeins frestun á greiðslu, og í öðru lagi er hér að ræða um stuðning við framleiðsluna. Og það sjónarmið varð ofan á, að styðja bæri bændur til þess að hrinda framleiðslu sinni í betra lag en áður með þeim framkvæmdum, sem styrkur er veittur til. Skiptir það ekki litlu máli, eins og nú standa sakir, þegar við getum búizt við að þurfa að reiða okkur meir en nokkurn tíma áður á landbúnaðarframleiðsluna. Jafnframt má taka fram, að ekki verður unnt án stórvandræða að láta lækkun, sem nú yrði samþ. að heimila, ná til lofaðra greiðslna, eins og á hefir verið bent. Lögfræðilega séð yrði mjög erfitt að svipta bændur styrk, sem þeir eru búnir að vinna fyrir samkv. eldri lögum. Almennt séð vegur hitt enn þyngra og sker raunar alveg úr, að þetta eru styrkir til framleiðslu. Hinsvegar finnst mér ekki hægt að komast hjá því að hafna brtt. hv. 10. landsk. á þskj. 543, hversu annt sem manni er um, að byggingum verkamannabústaða þoki áfram, því að þar er um enga framleiðsluaukning að ræða, enda er í 1. lið frvgr. lækkað framlag bæði til byggingar- og landnámssjóðs og endurbygginga íbúðarhúsa í sveitum, og eftir því væri ekki mikið réttlæti í því að samþ. brtt. á þskj. 543. hað er ekki hægt að neita því, að þörfin fyrir áframhaldandi byggingar er, þó að mikil sé í kaupstöðum, meiri í sveitum, þar sem enn hefir ekki verið byggt úr varanlegu efni nema á fáum stöðum tiltölulega. Þörfin er þar brýnni en svo, að því verði lengi frestað að fullnægja henni að nokkru. auk þess eru þeir mörgu bæir, sem endurreistir hafa verið, eða nýbýli reist, undanfarið, og skortir allmikið á, að peningar verði til þess að styrkja þau, eins og lög hafa mælt fyrir, á árinu 1941 þess vegna gæti komið til mála að lækka ekki styrkinn til nýbygginga, þótt styrkir til verkamannabústaða væru lækkaðir, en hitt væri fullkomið ranglæti, að snúa þessu við. við höfum fallizt á það, þó okkur þyki sárt, að koma ekki fram með brtt. um byggingar í sveitum. Þó að við séum hlynntir verkamannabústöðum í kaupstöðum, getum við ekki heldur verið með því að gera þar breyt. í algeru ósamræmi við lækkun byggingarstyrks í sveitum.