22.04.1940
Efri deild: 46. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (393)

99. mál, lækkun lögbundinna gjalda

Frsm. (Magnús Jónsson):

Ég vil aðeins svara fyrirspurnum hv. þm. Ég lít svo á, — og ég held, að n. geri það einnig, — að þessi l. komi hvortveggja til framkvæmda þannig, að l. um bráðabirgðabreyt. nokkurra l. verki þannig, að með henni lækki upphæðin frá því, sem hún er í fjárl., um 75 þús. kr., sem renna á til byggingar og landnámssjóðs, niður í 125 þús., og því verki þessi heimild um 35% lækkun þannig, að það verði 35% af 125 þús. kr. Það er svipað með þetta og kom fram í umr. milli hv. 10. landsk. og hæstv. fjmrh., að það eru þessar framkvæmdir, sem ómögulegt er að vænta, að verði nokkuð verulegt um á næstunni, og því þeir liðir, sem liggur næst að ákveða með l. að lækka, þar sem engar líkur eru til, að þar verði um nokkra starfsemi að ræða. En þrátt fyrir þetta koma til útborgunar milli 80 og 90 þús. kr., sem þessum sjóði er heimilt að nota. Svo er sá munur á, að í l. um bráðabirgðabreyt. nokkurra l. er fastákveðið tillag 125 þús., en hér er aðeins um heimild að ræða, sem kemur til greina, ef fjárhagsástandið verður svo erfitt, eins og það er orðað í 1. gr., „að tekjur ríkissjóðs bregðist verulega frá því, sem fjárl. gera ráð fyrir“, en við vonum allir, að til þess komi ekki, a.m.k. ekki í fullum mæli.

Ég hefi skilið þetta þannig, og ég hygg, að það sé þessi skilningur, sem frv. er byggt á, að niðurfærslan gildi þá upphæð, sem búið er að samþ., að eigi til þessa að ganga. (PZ: Ég skil það á hinn veginn). Um hinn liðinn, byggingu íbúðarhúsa, skilst mér, að hv. 1. þm. N-M. sé ekki í neinum vafa, heldur hafi hann þar aðeins lyst vanþókun sinni á því, að hann er lækkaður. Um það eru deildar skoðanir, en úr því hefir þegar verið skorið með atkvgr. við 2. umr., og þetta er nú ekki eins ógurlegt eins og menn hafa látið í veðri vaka í fyrstunni. Það er svo um flest, að því fylgja nokkrir byrjunarörðugleikar, og mun margt verða mönnum erfiðara en þótt þeir verði að doka nokkuð við eftir þessum styrk.

Ég held, að það hafi ekki verið fleira, sem hv. þm. minntist á.