23.04.1940
Neðri deild: 49. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í B-deild Alþingistíðinda. (403)

99. mál, lækkun lögbundinna gjalda

*Ásgeir Ásgeirsson:

Ég sagði ekki í minni ræðu áðan, að samþykkt minnar till. hefði áhrif á byggingu verkamannabústaða á þessu ári eða næsta ári. En hinu held ég fram, að það, hvað miklu sjóðirnir taka við, hafi áhrif á byggingu og vaxtakjör verkamannabústaða í framtíðinni. Um það er ekki hægt að deila. Þó sjóðirnir hafi nóg til að lækka vexti, eins og verið hefir, þá mun ekki vanþörf á, ef sjóðirnir eru nægilega sterkir til þess, að hafa vextina enn lægri en þeir hafa verið. það er líka svo í mörgum borgum í nágrannalöndum okkar, að vextir á slíkum byggingum eru orðnir lægri en nokkrum hefir dottið í hug ennþá, að þeir yrðu hér. En allir geta séð, hvílíka þýðingu það hefir fyrir verkamenn og þeirra lífskjör.

Það er þess vegna, að ég ber fram þessa brtt. Nú veit ég, að það eru ýmsir sjóðir, sem ekki ráðstafa til fulls sjóðsinnstæðum sínum, og vildi ég gjarnan, að þessir sjóðir nytu vegna framtíðarinnar sömu réttinda um ríkisframlag, þar sem búið er að klípa tvisvar af þeim áður.