23.04.1940
Neðri deild: 49. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í B-deild Alþingistíðinda. (404)

99. mál, lækkun lögbundinna gjalda

*Steingrímur Steinþórsson:

Ég get ekki sagt, að ég sé hrifinn af þessu frv. út af fyrir sig. Ég hefi litið á þetta svipað og hv. þm. V.-Ísf., að ef svo alvarlegir atburðir koma fyrir, sem vel kann að verða, að það þurfi að skera niður lögboðnar greiðslur í jafnstórum stíl, þá hljóti það að verða hlutverk þingsins að koma saman, og þá vegna margra annara hluta en hér um ræðir.

Ég verð að segja, að þetta frv. hefir tekið miklum bótum frá því að það var lagt fyrst frum. Ég hefði aldrei getað greitt því atkv., ef ákveðið um að lækka jarðabótastyrkinn um 35% frá því sem ákveðið er í l., til einstakra jarðabóta, hefði verið áfram í því. Ég lít svo á, að það hefði ekki verið hægt að gera það. Það verða teknar út jarðabætur í sumar, sem að nokkru leyti er búið að vinna áður, en það hefir verið ráðizt í þær í því trausti, að menn fengju út á þær þann styrk, sem ákveðinn er í l. til einstakra jarðabóta.

Um þetta þarf ekki að ræða frekar, því það er fellt burt.

Þetta gerir það m.a. að verkum, að ég sé mér fært að greiða frv. atkv. Ég geri það þó ekki af þeirri ástæðu, að ég viti ekki, að það er í raun og veru ómögulegt, eins og þessi mál hafa verið framkvæmd hin síðari ár, að minnka eða draga svo mikið úr vissum fjárveitingum eins og hér hefir verið gert. Ég vil einkum henda á liðinn um endurbyggingu íbúðarhúsa í sveitum. Það er svo, eins og hv. þdm. vita, því það hafa verið gefnar skýrslur um það til ríkisstj. og til fjvn., að samkv. reglum, sem gilt hafa um þennan styrk, þá bíða um 300 menn víðsvegar um landið. sem rétt eiga á styrk og byggt hafa í skjóli löggjafarinnar. Þeir bíða eftir því að fá þennan styrk greiddan, en verða á meðan að reyna að velta til á einhvern hátt þeim skuldum, sem á byggingunum hvíla. Ef þessi l. koma til framkvæmda, þá verða þeir enn að bíða í mörg ár eftir að fá þann styrk greiddan, sem þeir eiga rétt á samkv. löggjöf þeirri, sem gilt hefir í þessum efnum.

það mun nú vera svo, að samkomulag hafi orðið um það í ríkisstj., að þetta frv. skyldi fara í gegn í þeim búningi, sem það nú hefir, og þrátt fyrir það, þó ég sé mjög óánægður með sum ákvæði frv., þá mun ég beygja mig fyrir þessu samkomulagi og greiða frv. atkv. En það geri ég af þeim ástæðum, sem ég hefi áður greint, að ástandið er svo ískyggilegt, og þungi þess hvílir mest á stjórninni, og stjórnin hefir komið sér saman um þessa lausn, og það er fyrst og fremst fyrir þeim rökum, sem é beygi mig, en vil láta þessa stuttu greinargerð nægja að þessu sinni.