23.04.1940
Neðri deild: 49. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í B-deild Alþingistíðinda. (408)

99. mál, lækkun lögbundinna gjalda

*Einar Olgeirsson:

Það gat verið um tvennt fyrir stj. að gera, að reyna að skera niður gjöldin eða að auka tekjurnar. Fyrir þessari hv. deild hefir legið frv. um, að togaraeigendur skyldu ekki vera útsvarsfrjálsir lengur, en það var farið þannig með það, að nú eru þeir ekki aðeins skattfrjálsir, heldur einnig útsvarsfrjálsir. Það er séð um það, að þeir, sem geta borgað, fái að halda öllu sínu, en farin sú leiðin að skera niður bráðnauðsynleg fjárframlög, ekki aðeins til verklegra framkvæmda, heldur einnig til þeirra sjóða, sem eru til tryggingar fyrir almenning í landinu. Þetta eru sjóðir, sem endurbótamennirnir gátu verið stoltir af. Allt þetta virðist eiga að skera niður, og það á sama tíma, sem á að viðhalda skattfrelsi togaraeigenda. Það synir, hvert stjórnin stefnir, að hlífa þeim, sem gætu borgað, og gera ekkert, sem gæti tryggt afkomu verkalýðsins í landinu. Nú vildi ég bara mega spyrja, sérstaklega í sambandi við það, sem hv. 2. þm. Skagf. lýsti yfir áðan, um að það væri samkomulag í stj. um afgreiðslu þessa máls, og út af þeim upplýsingum, sem komu fram, hvort ráðherra Alþfl. í stj. hefir verið sammála um þann niðurskurð, sem hér liggur fyrir, að skera niður um 35% framlög til verkamannabústaða, lífeyrissjóðs og annars slíks. Ég vildi spyrja að því, á hvern hátt stj. heimilast að nota þennan rétt. Er það svo, að til þess þurfi aðeins 3 ráðh., eða þurfa þeir að vera 5? Þar sem það er upplýst, að Alþfl. hefir engu um þetta ráðið, væri gaman að vita, hvort ráðh. flokksins í ríkisstj. er á sama máli og flokkurinn í þessu, eða hvort ekki er fullt samkomulag um þetta í stj., og ennfremur væri gaman að vita, hvort hans samþykki þurfi til þess að nota heimildina. Ég vil upplýsa, að ef svo er komið, að Framsfl. og Sjálfstfl. komi sér saman um slíkt án þess að Alþfl. komi þar til,er sá flokkur orðinn eins og fimmta hjól í vagni í ríkisstj.

og þátttaka hans þar alveg þýðingarlaus, ef gert er slíkt samkomulag, hvað sem Alþfl. segir um það.

Þá vildi ég koma að því, hvað þingið er að gera með því að gefa stj. þá heimild, sem hér er um að ræða. Með því er þingið að fremja sjálfsmorð. Það er að leggja í hendur annara það vald, sem það eitt á að hafa. Það var fróðlegt að heyra til hv. 2. þm. Skagf. Hann segir, að af því að samkomulag hafi orðið, muni hann beygja sig. Maður fær að vita, hvernig það eru ráðherrarnir, sem ráða, í hæsta lagi 3. Það er farið með málin í þingið og sagt: Þetta eigið þið að samþykkja; ef þið gerið það ekki, eigið þið á hættu að missa bitlinga og góðu stöðurnar, — og svo standa þeir upp, eins og hv. 2. þm. Skagf., og segja, að samkomulag hafi orðið um þetta og því verði að samþykkja það. Ég held, að þingið sé kallað saman til annars en að gera þetta. Á þennan hátt er hver eftir annan beygður og meiri hl. fenginn. þennan hátt er þingræðið á Íslandi að drepa sjálft sig og rotast út af í aumingjaskap, með því að beygja sig í hvert skipti sem einhverjum skuldakónginum þóknast að setja hnefann í borðið. Það líður aldrei meira en einn dagur, í þetta skipti reyndar frá laugardegi til mánudags, þá eru þeir búnir að beygja sig. Þegar til kemur, láta þeir útgerðarmennina vera útsvarsfrjálsa eftir sem áður. og svo þegar koma einhverjar tillögur um að bæta úr atvinnuleysinu, er þeim stungið undir stól og þeir peningar, sem líklegir væru til þess að bæta kjör fólksins, eru látnir vera áfram í vasa stórgróðamannanna. þessum aðferðum vil ég mótmæla.