04.03.1940
Neðri deild: 9. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í B-deild Alþingistíðinda. (418)

34. mál, skipun læknishéraða

Helgi Jónasson:

Á þinginu 1938 bar ég fram þáltill. um að athuga möguleika á að stofna læknishérað fyrir nokkurn hluta Árnes- og Rangárvallasýslu með læknissetur í Þjórsártúni. Við nánari athugun heima fyrir í héraði var litið svo á, þegar farið var að athuga þá hreppa, sem komið hefðu til með að verða í þessu nýja héraði, að þótt erfitt sé að hafa ekki nema einn lækni í Rangárhéraði, eins og komið væri læknamálum landsins, væri ekki hyggilegt að stofna þarna nýtt hérað, því að það hefir verið svo, að erfitt hefir verið að fá lækna í héruðin úti um land, og var litið þannig á, að því meiri örðugleikar yrðu á að fá lækna í smærri héruð heldur en ef þau væru stór. Í Rangárhéraði er 31/2 þús. manns, og er þar víða ákaflega erfitt og kostnaðarsamt að ná í lækni, en þó féllum við flm. frá. að nýtt læknishérað yrði stofnað við Þjórsá. Þetta hérað á fullan rétt á sér, ég skal fúslega viðurkenna það, en það yrði mjög fámennt, ekki nema eitt þús. manns, og ef það væri lengra frá Reykjavík, þá mætti búast við, að erfitt yrði að fá lækni þangað, en ég geri ráð fyrir, þar sem það er ekki lengra frá Reykjavík, þá muni verða kleift að fá lækni í héraðið.

Ég vil spyrja hæstv. stj., hvort ekki sé von á einhverjum ráðstöfunum frá hálfu hæstv. heilbrigðistjórnar um læknamál sveitanna, því að það mál þolir enga bið lengur. Komi ekkert frá stj. þessu viðvíkjandi, þá munu einstakir þm. bera fram frv. í þá átt.