14.03.1940
Sameinað þing: 6. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (42)

1. mál, fjárlög 1941

*Sigurður E. Hlíðar:

Það má segja, að óvanalegt sé, að maður úr fjvn. leyfi sér að koma með brtt. við fjárl. Ég hefi gert mig sekan í þessu, þar sem ég hefi ásamt öðrum góðum mönnum komið með brtt. á þskj. 127. Að ég hefi ekki farið með brtt. í fjvn. og fengið hana borna þar upp, liggur í því fyrst og fremst, að málið er sérstaks eðlis, og í öðru lagi að flm. till. að mér undanskildum hafa sérstöðu í þinginu, þar sem þeir eru formenn þeirra flokka, sem standa að þjóðstjórninni.

Það þarf ekki að rekja tildrög þessa máls, því að það er hv. þm. kunnugt, hvernig það er til orðið, að fjársöfnun hófst hér til þess að rétta hjálparhönd skipbrotsmönnunum af vélbátnum Kristjáni, til þess að gefa þeim tækifæri til að halda áfram sínu framleiðslustarfi. Það, sem vakti sérstaklega „stemningu“ hjá mér og mörgum öðrum mönnum, var einmitt það, að þegar þessi skipshöfn náði landi eftir þá einstökustu hrakninga, þá var þeim það efst í hug, þegar þeir koma í land, að komast út á sjóinn aftur sem fyrst til þess að taka þátt í framleiðslustörfunum á ný-, eða m.ö.o. að fá skiprúm í öðrum bát. Ég þekki þessa menn ekki persónulega, en ég hygg, að þeir séu vei að því komnir, að þeim sé rétt hjálparhönd, enda hefir sú fjársöfnun, sem hafin hefir verið í þessu skyni utan þings, fengið ágætar undirtektir og sömuleiðis hér í þinginu, þar sem formenn þingflokkanna hafa nú gerzt flm. að þessari till. vil ég því fastlega vænta þess, að hún verði samþ. Ég vildi, að það kæmi sérstaklega fram á þessari virðulegu samkomu þjóðarinnar, að hún kynni að meta það afrek, sem þessi skipshöfn hefir unnið, og vilji verðlauna hana. Hér er ekki verið að skapa neitt fordæmi, því að þetta er alveg einstakt tilfelli. Þessi skipshöfn var talin af af öllum. Það var sagt, að þeir væru horfnir í hafið mikla og mundu ekki sjást framar. Þess vegna vakti það hrifningu og fögnuð hjá hverjum manni, þegar þeir komu fram heilir á húfi.

Ég vil því leyfa mér að mæla með þessari till. og vona, að hv. þm. líti sömu augum á hana og ég og samþ. hana.