14.03.1940
Sameinað þing: 6. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í B-deild Alþingistíðinda. (45)

1. mál, fjárlög 1941

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Það er í sjálfu sér lítið tilefni til þess fyrir mig að taka til máls aftur.

Ég get í raun og veru þakkað hv. frsm. n. fyrir það, sem hann hefir fyrir n. hönd sagt hér, því að n. hefir í aðalatriðum a.m.k. viðurkennt mitt sjónarmið í sambandi við undirbúning frv. fyrir þingið. Og þó sú hafi orðið niðurstaðan. að afgr. frv. með nokkru öðru móti en ég hafði hugsað mér, þá skilst mér, að n. hafi í raun og veru orðið mér sammála um, að ekki hefði verið ástæðulaust, að viðhöfð var sú varúð, sem ég taldi nauðsynlegt, að viðhöfð væri, þegar frv. var samið.

Það hefir orðið lítilsháttar misskilningur milli okkar í sambandi við heimild til lækkunar á útgjöldum, sem ekki eru í fjárlögum. Það var ekki mín meining, að ég hefði búizt við, að fjvn. kæmi með frv. um þá heimild. Það liggur í hlutarins eðli, þegar af þeirri ástæðu, að n. hefir sem slík ekki aðstöðu til að bera slíkt frv. fram, vegna þess að frv. þarf að berast fram í d. Ég saknaði þess aðeins bæði í nál. og ræðu frsm., að á þetta væri minnzt. En nú er fengin viðurkenning fyrir því, að n. hafi verið þetta kunnugt, og meira að segja, að mér skilst, að n. hafi beinlínis gert ráð fyrir, að slíkt frv. kæmi fram, og jafnvel að hún væri þess hvetjandi, að slík ráðstöfun yrði gerð. Annars geta umr. um það atriði að sjálfsögðu beðið þangað til það frv. kemur fram.

Yfirleitt finnst mér, þegar allt er athugað, að okkur beri ekki svo mikið á milli um afgreiðslu málsins.

Hv. frsm. sagði, að menn væru sammála um, að lækka þyrfti útgjöldin, en um það mætti deila, hvað af þeim ætti að lækka. Í því sambandi gat hann þess, að a.m.k. þyrfti að sjá um, að laun starfsmanna ríkisins héldust sem mest í því horfi, sem nú væri, en þau væru ekki hækkuð á sama tíma og lækka þyrfti framlög til nauðsynlegra framkvæmda. Fínar skoðanir á þessu fara í sjálfu sér mjög nálægt hans skoðunum á þessu atriði, en eins og ég tók fram í framsöguræðu minni við 1. umr. fjárlaganna, því treysti ég mér ekki að svo stöddu að byggja afgreiðslu fjárlaganna á slíkum sparnaði, og mér skilst, að n. sé mér sammála að þessu leyti, því hún hefir ekki komið með neinar till. í þessa átt, a.m.k. ekki almennt.

Hvað snertir till. um dýrtíðaruppbót opinberra starfsmanna, þá vil ég minna á það, að frv. það, sem nú er fram komið, var samið beint eftir samþykktum síðasta þings, sem gerð var svo að segja einróma. Hvernig afstaða þessa þings verður til þessa máls, er ekki vitað, en þangað til afstaða verður til þess tekin, verður að gera ráð fyrir, að dýrtíðaruppbótin verði sú sama, sem gert var ráð fyrir í l. frá síðasta þingi. annars er ég ákaflega hræddur um, jafnvel þó dýrtíðaruppbótin yrði lækkuð, að ekki verði hægt að komast af með þá fjárhæð í þessu skyni, sem n. hefir lagt til.

Áætlun einstakra liða er ekki ástæða til að fara nánar út í en þegar er orðið. Það hefir orðið talsverður meiningarmunur um áætlun á tekjum af landssímanum og útvarpi. Ég skal leiða þær umr. hjá mér að öðru leyti en því, að ég get sagt, að ég tel ákaflega hæpið, að áætlun n. að þessu leyti geti staðizt. Hvað snertir tekjurnar af útvarpinu get ég vísað til þess, er hv. 6. þm. Reykv. sagði. Áætlun n. mun vera byggð á því, að hver einasti útvarpsnotandi greiði sitt afnotagjald, en það tel ég óvarlegt að áætla.

Viðvíkjandi því, sem hv. frsm. sagði um þá tekjustofna, sem ónotaðir væru, þá er ekki til neins að vera að ræða slíkt. Afeðan vaxtaskatturinn er ekki kominn á, er ekki hægt að gera ráð fyrir þeim tekjum, sem af honum leiðir, enda ekki um svo verulega upphæð að ræða, a.m.k. ef miðað er við frv. eins og það var, þegar það fór úr Nd. á síðasta þingi. Það gæti því ekki skipt verulegu máli í þessu sambandi.