13.03.1940
Neðri deild: 16. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í B-deild Alþingistíðinda. (471)

50. mál, bann gegn jarðraski

*Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Þetta mál lá fyrir síðasta þingi, en dagaði uppi af sérstökum ástæðum. Nú hefir það verið afgr. frá landbn. með einróma meðmælum um, að það nái fram að ganga.

Frv. þetta er flutt að tilhlutun búnaðarþings. Ástæðan fyrir flutningi þess er sú, að á allmörgum stöðum á landinu hagar þannig til, að allmiklir sand- og malarkambar hafa safnazt úti fyrir ströndinni og orðið að varnargörðum fyrir sjávargangi. Nú hefir það hinsvegar sumstaðar orðið svo, að þar sem eigendur þessara malar- og sandkamba hafa haft markað fyrir sandinn, hafa þeir sumir orðið svo ágengir á hann, að sumstaðar vofa yfir stór landspjöll af þessum sökum. Það eru a.m.k. tveir til þrír staðir á landinu, sem þannig stendur á, að ekki einungis land þess, sem malarkambinn á, heldur og fleiri jarðir, eru í yfirvofandi hættu, ef þessu heldur áfram. Þykir því nauðsyn, að til sé vald, sem getur bannað slíkt jarðrask.

Vil ég vænta þess, að hv. dm. taki þessu máli með skilningi.