26.03.1940
Efri deild: 21. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í B-deild Alþingistíðinda. (483)

50. mál, bann gegn jarðraski

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Það er ekki mikið að segja um þetta frv. Fyrst var það borið þannig fram í neðri deild af flm., að það átti að verða sérstök l., en síðan var óskað eftir, að það kæmi fram sem breyt. á eldri l. og yrði fellt inn í l. frá 19. júní 1933, um bann gegn jarðraski við sjó í kaupstöðum.

Nýmælið í þessu frv. er fólgið í því, að ráðh. sé heimilt að banna sand- og malartöku hvar sem er á landinu, þar sem mikil hætta stafar af jarðraski fyrir nytjaland eða byggð.

Að öðru leyti eru sektarákvæðin, er liggja við þessu, sett nokkuð há, og eru sektir hækkaðar nokkuð frá því, sem áður var. Að vísu leikur stundum vafi á, hvort ástæða væri til að fela vitamálastjóra að gera till. um það upp til sveita, hvort hætta myndi stafa af jarðraski. Það gæti virzt liggja eins nærri, að vegamálastjóri gerði till. um það, í samráði við Búnaðarfélag Íslands, eða jafnvel Búnaðarfélag Íslands eitt. En þetta er fremur formsatriði en að það hafi raunverulega þýðingu, og þess vegna áleit landbn. ekki rétt að gera breyt. á frv. til þess að fara að hrekja það milli deilda. Landbn. Ed. er því sammála landbn. Nd. um að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það liggur hér fyrir.