28.02.1940
Neðri deild: 6. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í B-deild Alþingistíðinda. (510)

11. mál, vitabyggingar

*Atvmrh. (Ólafur Thors):

Með frv. þessu er farið fram á, að eftirleiðis verði vitagjaldinu öllu varið í þarfir vitamálanna, og gerir 1. gr. frv. nánari grein fyrir því, hvað við er átt með því orðalagi. Ég tel og, að það muni hafa vakað fyrir löggjafanum, að slík framkvæmd skyldi verða á þessum málum, en reyndin hefir orðið önnur.

Eins og sjá má í grg., er fylgir frv., hafa eftir árið 1927 orðið mikil vanhöld á því, að vitagjöldin rynnu í þágu vitanna. Til ársloka 1927 var varið úr ríkissjóði í þarfir vitanna rúmlega 413 þús. kr. umfram vitagjaldið, frá því það var lagt á, en á síðustu 12 árum er þessi mynd orðin svo gerbreytt, að nú skortir á um 1253000 kr. að til vitamála hafi runnið allt vitagjaldið. Þetta sýnir, að á síðustu 12 árum hefir ríkissjóður tekið til sin og varið til annara þarfa 1637000 kr. af vitagjaldinu. Þetta tel ég fullkomna óhæfu, og ég dreg ekki í efa, að allir geti verið sammála um, að það nái ekki nokkurri átt, að Íslendingar geri sér vitagjöldin að tekjulind, svo mjög sem á það skortir, að vitakerfið geti talizt sæmilegt.

Í grg. er þess getið, að enn eru óbyggðir 55 af þeim vitum, sem vitalögin gera ráð fyrir. Flestir þessara vita verða alldýrir, og sumir þeirra munu kosta svo skiptir hundruðum þúsunda, en allir eru þeir nauðsynlegir, og við myndum vilja byggja fleiri vita en þessa, ef fjárhagur leyfði, því að þörfin er brýn.

Ég þarf ekki að leiða rök að því, að fullkomið vitakerfi myndi eiga sinn þátt í því að draga úr þeim tíðu og hörmulegu sjóslysum, sem eiga sér stað árlega við strendur landsins. Og ég verð að segja það, að venjulega hefir andað þeirri hýju úr garði Alþ. til sjómannastéttarinnar, er á hana hefir verið minnzt hér, að við flm. ættum ekki að þurfa að kvíða því, að frv. nái ekki fram að ganga.

Við höfum sett það ákvæði í 2. gr., að lög þessi komi ekki til framkvæmda, á meðan styrjöldin stendur yfir. Þetta höfum við gert til þess að mæta þeirri mótbáru, sem kynni að rísa, þótt órökstudd sé, að eins og nú horfir megi ekki svipta ríkissjóð þessari tekjulind, á meðan öll fjárhagsleg afkoma hans sé í jafnmikilli óvissu og nú er. Hefir okkur og fundizt meinfangalaust, þótt þetta ákvæði verði sett, þar sem gera má ráð fyrir, að vitagjaldi lækki að miklum mun vegna minnkandi siglinga til landsins um ófriðartímann. Nú mætti spyrja: Hvers vegna á þá að vera að lögfesta þessa breyt. nú? Það er vegna þess, að þess hefir verið krafizt, að framlög til nýrra vitabygginga falli niður vegna þröng fjárhags ríkissjóðs og skorts á erl. gjaldeyri nú um sinn. Ég myndi ekki telja mér fært að sitja sem atvmrh., ef slík krafa væri borin fram á venjulegum tímum, en eins og nú er málum háttað mun ég þó sætta mig við hana, ef Alþ. samþ. þetta framtíðarskipulag á vitamálunum, sem frv. fer fram á.

Ég læt svo þessi fáu orð nægja til þess að fylgja frv. úr hlaði, enda geri ég ráð fyrir góðum hug hv. þm. í garð þessa máls.

Að lokinni þessari umr. leyfi ég mér að vænta þess, að frv. verði vísað til sjútvn., og vil jafnframt beina þeim tilmælum til n., að hún veiti málinu fljóta og góða afgreiðslu.