14.03.1940
Neðri deild: 17. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í B-deild Alþingistíðinda. (536)

12. mál, tilraunir í þágu landbúnaðarins

Skúli Guðmundsson:

Ég vildi aðeins beina þeirri fyrirspurn til hv. flm., hvort þeir hefðu gert sér grein fyrir því, hvað mikill kostnaður myndi því samfara nú strax á fyrsta ári, ef þetta frv. yrði gert að l.

Það getur verið, að gerð hafi verið grein fyrir þessu í grg. frv. á síðasta þingi; ég hefi ekki athugað það. En þetta atriði þætti mér gott að fá upplýst.

Mér þykir sennilegt, að það verði einhver kostnaður í sambandi við þessar tilraunir, þar sem líka eiga að vera tvö tilraunaráð og gert er ráð fyrir að fimm menn sitji í hvoru.

Þá finnst mér dálítið einkennilegt, hvernig fyrsta brtt. n. á þskj. 104 er orðuð. Þar stendur, í upphafi þeirrar gr., „forstöðumaður fóðurtilrauna og forstöðumaður búfjársjúkdómatilrauna“. Ég vildi aðeins skjóta því til hv. n., hvort hún vilji taka til athugunar þetta orð „búfjársjúkdómatilrauna“.