29.03.1940
Efri deild: 24. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í B-deild Alþingistíðinda. (568)

59. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Þetta frv. er flutt af sjútvn. Nd. og hefir gengið gegnum þá d. með aðeins lítilsháttar breyt.

Í þessu frv. eru 3 atriði, sem farið er fram á að breyta frá gildandi l., og þau atriði virðast í fljótu bragði ekki vera mjög þýðingarmikil, en eru það þó í raun og veru. l. um bann gegn dragnótaveiði í landhelgi eru þannig úr garði gerð, að ráðh. er heimilt að ákveða með reglugerð möskvastærð dragnóta og lágmarksþyngd fiskjar. En það hefir sýnt sig við framkvæmd l., að það er réttara, að þessi ákvæði séu miðuð við stærðina á fiski, því að fiskurinn getur verið í því ástandi, að hann nái vissri þyngd, þó að hann nái ekki vissri stærð, og auðvitað hefir stærðin meira að segja en þyngdin„ vegna þess að það er stærðin, sem aðallega er hægt að fara eftir, er ákveða skal aldur á fiski. Þessi breyt., sem ég hefi nú minnzt á, er því talin bæði af sjómönnum og fagmönnum mjög nauðsynleg. Í Nd. var svo bætt inn í frv. ákvæði um, að viðkomandi ráðh. gæti einnig með reglugerð ákveðið lengd dráttarlína. Ég skal aðeins segja það, að í sumum tilfellum getur það valdið skemmdum, að nota ekki hæfilega langar dráttarlínur, og verður þar að leita umsagnar fróðra manna. Það er varhugavert að ákveða sömu lengd á dráttarlínum alstaðar þar, sem misdýpi er, því að það þarf lengri dráttarlínur á djúpu vatni en grunnu. Það getur hinsvegar verið skaði að því að hafa mjög langar dráttarlínur á grunnu vatni; þá dregzt nótin eftir botninum og rífur hann upp miklu meira en ella. Ég skal segja fyrir mitt leyti, að ég tel, að það muni ekki koma að sök, þó að þetta ákvæði standi áfram í frv., en ég tel þó, að því verði ekki neitað, að menn gætu vænzt þess, að þessu yrði ekki þannig fyrir komið sem gert var í þessu frv., er það kom frá d.

Þá er önnur breyt., sem þetta frv. gerir á sömu l.; það er ákvæðið um sektir fyrir brot á l. Samkv. núgildandi l. eru aðeins ákveðnar sektir fyrir brot á 3. og 4. gr., en ekki öðrum gr. En nú er það svo samkv. frv., að sektir liggja einnig við brotum á 8. gr., og er sjálfsagt að refsa fyrir slík brot, vegna þess að þau hafa í för með sér ákaflega mikið tjón á fiskstofninum, en engan hagnað fyrir fiskimenn. Það kemur þeim ekki að neinu liði, þó að þeir drepi ungviðið. Þess vegna er réttmætt að heimfla að ákveða í reglugerð sektir einnig fyrir brot á 8. gr.

Sjútvn. Ed. hefir athugað frv. og leggur einróma til, að það verði samþ. eins og það liggur fyrir.