14.03.1940
Neðri deild: 17. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í B-deild Alþingistíðinda. (589)

66. mál, búfjárrækt

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Eins og frv. ber með sér, er það flutt af landbn. fyrir tilmæli hæstv. landbrh., sem hefir látið semja það í samráði við Búnaðarfélag Íslands, sem að lögum hefir eftirlit með fóðurbirgðafélögum. Aðalbreytingin, sem í frv. þessu felst, er sú, að bústofn félagsmanns, sem fær lán úr tryggingarsjóði fóðurbirgðafélags bústofninum til bjargar, skuli vera að lögveði fyrir láninu með vöxtum og kostnaði, og gangi þetta fyrir öðrum veðböndum, sem á bústofninum hvíla. Þetta hefir ekki verið í lögum áður, en er nauðsynlegt til þess að sjá fóðurbirgðafélögunum farborða.

Þá hafa nokkur atriði úr gildandi reglugerð um fóðurbirgðafélög verið tekin upp í frv. um leið. Það þykir hagkvæmara að hafa þau í lögunum sjálfum, en allt eru þetta frekar veigalítil atriði.

Hefi ég svo þessi orð ekki fleiri.