04.04.1940
Sameinað þing: 13. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í B-deild Alþingistíðinda. (59)

1. mál, fjárlög 1941

*Frsm. samvinnun. samgm. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti! Samvinnunefnd samgöngumála hefir leyft sér að bera fram brtt. við frv. til fjárlaga fyrir árið 1941, sem er á þskj. 352, en hún er á þá leið, að til flóabátaferða skuli á árinu 1941 verja 93900 kr. í staðinn fyrir 87900 kr., eins og gert er ráð fyrir í frv. Upphæð þessi er í samræmi við það, sem sagt er í nál. á þskj. 342. Samvinnunefnd þessara n. tók það ráð, að miða till. sínar við áætlun þessara útgjalda fyrir yfirstandandi ár, en styrkirnir voru þá hækkaðir talsvert. N. sá sér ekki fært að gera neinar verulegar breyt. á þessu, þar sem ekki er sýnt enn, hversu sú áætlun, sem þá var gerð, fær staðizt. Það þótti sýnt þegar á síðasta þingi, að þeir styrkir, sem áður höfðu verið ætlaðir til þessara hluta, myndu ekki nægja til að standast kostnað við þessar ferðir vegna aukinnar dýrtíðar, enda þótt flutningsgjöldin hækkuðu nokkuð. Ég hefi nokkuð kynnt mér þetta mál, og n. í heild. Það hefir komið í ljós, að flutningsgjöldin hafa hækkað misjafnlega mikið, en þó er alstaðar um hækkun á þeim að ræða, þar sem ferðir eru komnar í gang. Ég skal geta þess, að n. hefir. sett það skilyrði, að skipaútgerð ríkisins hafi eftirlit með ferðunum og samræmi bátaferðirnar við höfuðstrandferðirnar. Sömuleiðis er nú gert ráð fyrir því, og það var tekið fram við forstjóra skipaútgerðar ríkisins, að skipaútgerðin hefði ríkt eftirlit með þeim taxtahækkunum, sem kynnu að verða óhjákvæmilegar, þrátt fyrir hækkaða styrki.

Ég skal geta þess, að ferðirnar um Faxaflóa munu ekki hafa borið sig eins vel síðasta ár eins og árið á undan. Kom þetta n. nokkuð á óvart, þar sem þessar ferðir virðast vera líklegastar til að bera sig. Samkvæmt skýrslum, sem fyrir liggja, en þó eru ekki alveg nákvæmar, lítur út fyrir, að Borgarnesferðirnar hafi ekki borið sig vel. Mun þetta liggja að nokkru leyti í því, að flutningarnir hafa meira færzt yfir á Akranes. N. komst þess vegna að þeirri niðurstöðu, að taka yrði upp styrk til Borgarnesferðanna, og leggur til, að veittar verði 4500 kr. til þeirra. Á fjárlögum yfirstandandi árs var ekki gert ráð fyrir neinum beinum styrki úr ríkissjóði til þessara ferða, en hinsvegar var til þess ætlazt, að „Laxfoss“ yrði veittur 6000 króna styrkur úr ríkissjóði til að halda uppi ferðum til Breiðafjarðar. Samtímis þessu hafa n. borizt fregnir en taxtahækkanir einmitt með þessum báti, og ég verð að segja, að mér finnast þær nokkuð miklar. Það verður hinsvegar að ráðast, hvernig afkoman verður af þessum ferðum bæði með mjög hækkuðum töxtum og hækkuðum styrkjum úr ríkissjóði, en allt þetta á að liggja undir eftirliti skipaútgerðar ríkisins. Styrkurinn til Borgarnesferðanna er það, sem mestu veldur um þá hækkun á flóabátastyrkjunum, sem n. hefir lagt til. Það hefir verið sýnt fram á það, að óhjákvæmilegt muni vera að hækka styrkinn til Skagafjarðarferða um 1000 kr. Um aðrar hækkanir er ekki að ræða í þessum till., nema einar 500 krónur, sem teknar hafa verið til samgangna milli Flateyjar og Húsavíkur.

Það orkar að sjálfsögðu alltaf nokkurs tvímælis hjá fulltrúum þeirra héraða, sem hér eiga hlut að máli, hvort styrkirnir séu nægilega ríflegir, en eins og gefur að skilja, er um þetta mál eins og önnur, að n. gat ekki farið eftir öllum kröfum, sem fram komu. Þetta veit ég, að hv. þm. er ljóst, og að þeir muni þess vegna sætta sig við till. n.