29.03.1940
Efri deild: 24. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í B-deild Alþingistíðinda. (600)

66. mál, búfjárrækt

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, hefir verið borið fram í Nd. af landbn. að tilhlutun hæstv. landbrh., og það hefir gengið gegnum þá d. breytingalaust.

Það eru aðallega tvö nýmæli í þessu frv. Fyrsta gr. þess er um, hvernig slíta skuli fóðurbirgðafélögum, ef þau leysast upp, og sé ég ekki ástæðu til að lýsa því hér frekar; landbn. hefir sýnilega talið það sjálfsagt að hafa það þannig.

Hitt nýmælið er í 2. gr. þessa frv., um það, að stj. fóðurbirgðafélaga geti veitt félagsmönnum lán úr tryggingarsjóði til bjargar bústofni þeirra, og er bústofninn að lögveði fyrir láninu þangað til það er að fullu greitt. Það hefir þótt erfitt að innheimta slík lán, en með þessu frumvarpi, ef það verður að lögum, á að vera séð fyrir því, að bústofn lánþega verði næg trygging fyrir láninu, og að bústofninn verði ekki fyrir meiri skakkaföllum, sem viðráðanleg eru, en svo, að jafnan sé næg trygging í eftirstöðvum hans fyrir láninu með vöxtum og kostnaði.

Þó fannst hv. landbn. Nd. ástæða til að breyta tveim atriðum í þessu frv. Fyrst og fremst að orðalagið yrði skýrara og nákvæmara hvað það snertir, að lán úr tryggingarsjóðum yrði aðeins leyfilegt að veita mönnum til að bjarga bústofni þeirra, og þá einkum seinni hluta vetra. eða á vorin, en það er einkum á þeim tíma árs, þegar ekki er unnt að slátra fénaði nema sér til mikils skaða. Þessi lán má því ekki veita mönnum nema til að bjarga bústofni þeirra frá alveg yfirvofandi felli.

Í öðru lagi var það, að landbn. Ed. sá ekki, að það væri fært að leyfa mönnum að taka lán ár eftir ár alveg skilyrðislaust að öðru leyti en því, að bústofninn væri settur að lögveði fyrir láninu, og mönnum væri þar af leiðandi leyfilegt að setja svo margt fjár á vetur sem þeir teldu sig þurfa, og hlaða svo hverri ábyrgðinni ofan á aðra með lögveði í bústofninum án þess að haft væri eftirlit með því. Þess vegna hefir landbn. Ed. sett það ákvæði í nál. sitt á þskj. 224, að tryggingarskyldan skuli ekki standa lengur en tvö ár frá lántökudegi; með því móti er ekki mikil hætta á því, að unnt sé að hlaða mörgum ábyrgðum hverri ofan á aðra, enda er svo ákveðið í frv., að lögveð þetta gangi fyrir öllum öðrum veðböndum. við, sem sæti eigum í landbn. Ed., töldum þetta frv. nauðsynlegt og til bóta frá því, sem verið hefir. Í lok brtt. okkar er lagt til, að lögveð þetta gangi fyrir öllum veðböndum, því að ella geta þeir, sem í félögunum hafa verið, misst það forgangsveð, sem ætlazt var til, að þeir hefðu fyrir öllum lánum úr sjóðnum.

Landbn. mælir eindregið með því, að þessi brtt. verði samþ. eins og hún liggur fyrir.