04.03.1940
Efri deild: 9. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í B-deild Alþingistíðinda. (654)

30. mál, erfðaábúð og óðalsréttur

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Ég skal játa, að það er ekkert stórmál, sem hér er á ferðinni, en þótt svo sé ekki, þá er það allþýðingarmikið fyrir nokkra menn í landinu, og það er réttlætismál að því er þá snertir.

Eins og kunnugt er, þá er svo ákveðið í l. um erfðaábúð og óðalsrétt, að ábúendur jarða í erfðaábúð mega veðsetja jarðirnar fyrir byggingarláni, sem nemur allt að 50% af fasteignamatsverði lands jarðanna. Nú hefir það komið í ljós, að þessi lánsheimild er allt of lág, ef ætlazt er til þess á annað borð, að lán veiti nokkra verulega hjálp til bygginga á slíkum jörðum. Það þarf ekki annað en bera þetta saman við þá möguleika, sem sjálfseignarbændur hafa til að fá slík lán út á sínar jarðir.

Bæði byggingar- og landnámssjóður og ræktunarsjóður hafa heimild til að veita lán, sem nema allt að 60% af fasteignamatsverði eignarinnar, bæði lands og húsa.

Reynslan hefir líka sýnt, að ábúendur á jörðum í erfðaábúð, sem hafa ráðizt í byggingar, eru þegar komnir í hið mesta öngþveiti, þótt ekki sé langt síðan l. gengu í gildi. Ég þekki t.d. mann, sem síðasti. sumar réðst í að byggja íbúðarhús á jörð, sem ekki er hærra metin en svo, að landið er metið á 3000 krónur. Samt sem áður eru taldir þarna töluverðir framtíðarmöguleikar. Þess vegna réðst bóndinn í að byggja þarna hús úr steinsteypu, sem á að vera yfir eina fjölskyldu, eins og venja er um hús, sem byggð eru á smærri jörðum. Það eru einar 1500 kr., sem bóndinn getur fengið að láni til þessarar byggingar. Auk þessa hefir hann von um einhvern styrk úr endurbyggingarsjóði, og við skulum segja, að það verði hámark, eða aðrar 1500 kr. Hann fær þá þarna alls 3000 kr., en húsið hefir sjálfsagt kostað hann upp undir 10000 kr., þó það verði auðvitað ekki metið svo hátt til fasteignamats.

Það sjá nú allir, hvað þægilegt þetta muni gera fyrir þennan ábúanda. Svipaða sögu munu ýmsir fleiri hafa að segja.

Ef þetta hefði verið maður í sjálfsábúð, þá hefði hann getað fengið úr byggingar- og landnámssjóði 4500 kr. lán og 1500 kr. styrk úr endurbyggingarsjóði, eða samtals 6000 kr., í staðinn fyrir 3000 kr. með þessu móti.

Ég skal nú að vísu játa, að þar sem ríkið á þessar jarðir, þá gerir það vissulega sæmilega við ábúendur þeirra í því að leyfa þeim að veðsetja jarðirnar sem nemur 50% af landverðinu. En það, sem mér finnst vanta á í þessu efni og vera óeðlilegt, er það, að eignir ábúendanna sjálfra skuli ekki að neinu leyti vera teknar til greina, að ábúandinn skuli ekki geta veðsett sínar eigin eignir á jörðinni. Hér er því lagt til í þessu frv., að auk þess, sem byggingarlán til þessara bænda megi nema 50% af landverði jarðarinnar, þá komi: að viðbættum 25% af fasteignamatsverði þeirra húsa, sem ábúandi á á jörðinni.

Ég var áðan að bera kjör þessara bænda saman við kjör sjálfseignarbænda. En það þarf ekki til. Það má bera þau saman við kjör annara leiguliða. Eins og hv. dm. vita, er það yfirleitt skylda landsdrottins að leggja til sæmileg hús á jörðina, en ábúandinn á jörð í erfðaábúð verður sjálfur að leggja til húsin, og hefir ekki aðra möguleika til að fá lán, samkv. gildandi l., en 50% af fasteignamatsverði landsins.

Ég tel víst, að ef ekkert verður að gert til að lagfæra þetta, þá hljóti að fara svo, að ýmsir bændur, sem hafa tekið jarðir í erfðaábúð, þar sem léleg hús eru eða engin, verði að hrökklast burt af jörðunum og enginn fáist til að taka þær aftur með öðru móti en því, að ríkið byggi eða leggi fram fé til bygginganna. En hag ríkisins verður ekki betur borgið á þann hátt heldur en þó leyft sé að hækka lítið eitt þau lán, sem þessir menn geta fengið til bygginga á jörðunum.

Ég skal játa, að það er yfirleitt rétt að fara varlega í lánveitingum, ekki hvað sízt til bygginga á jörðum, því það hefir þegar sýnt sig, að mörg slík lán hafa að því leyti verið of há, að ef þurft hefir að ganga að jörðunum, þá hefir ekki verið hægt að selja þær svo háu verði, að lánin greiðist að fullu. Og þess vegna er það, að hér er ekki farið fram á annað en að tekið sé tillit til bygginga, sem ábúandinn á sjáifur, að 1/4 hluta, þegar um lánveitingar er að ræða.

Það hefði verið í samræmi við þau lagaákvæði, sem annars gilda um lánveitingar úr byggingar- og landnámssjóði og ræktunarsjóði, að í stað 25% hefði verið 60%, en við vildum ekki fara hærra en þetta, af þeim ástæðum, sem ég greindi, að við viljum, að sem allra varlegast sé farið, en teljum þó, að með gildandi ákvæðum í l. um erfðaábúð og óðalsrétt sé þessu allt of þröngur stakkur skorinn.

Ég álít, að enda þótt búast megi við, að ekkert verði um byggingar á næstunni, þá sé stefnt í svo mikið óefni að því er þá menn snertir, sem á þessum jörðum búa og þegar hafa lagt í byggingar, að ekki verði hægt að komast hjá því, að Alþ. leiðrétti þetta nú.

Það er gert ráð fyrir, að þetta verði stutt þing. Þetta er hinsvegar ekki neitt stórmál, og ég býst ekki við, að menn vilji fresta þinginu vegna þess eins. Ég vildi því mælast til, að sú n., sem fær það til meðferðar, hraði afgreiðslu þess sem allra mest.

Ég legg til, að málinu verði, að þessari umr. lokinni, vísað til 2. umr. og landbn.