04.04.1940
Sameinað þing: 13. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í B-deild Alþingistíðinda. (66)

1. mál, fjárlög 1941

Bernharð Stefánsson:

Ég hefi nú ekki á undanförnum árum lagt í vana minn að bera fram brtt. við fjárl. Ég hefi ekki gert það síðan árið 1933. Eina undantekningin frá því er, að ég var meðflm. að einni brtt. á síðasta þingi. Sú till. var aðeins um leiðréttingu á annari till., sem fram var komin frá fjvn., og get ég því ekki talið hana. Og stendur því þetta í raun og veru, að ég hefi ekki borið fram brtt. við fjárl. til hækkunar siðan á þinginu 1933.

En nú hefi ég brugðið út af þeirri venju og gerzt meðflm. að einum fjórum brtt., sem hér liggja fyrir. Og með því að svo stendur á, að ég á, sem kunnugt er, sæti í fjvn., þá þykir mér rétt að segja hér nokkur orð mér til réttlætingar, því að í sjálfu sér er það svo, að þegar maður hefir setið á mörgum þingum án þess að bera fram brtt. við fjárl. og ekki átt sæti í fjvn., þá kynni í fljótu bragði að virðast enn minni ástæða að gera slíkt fyrir vann sem þar á sæti. Ég mun þó ekki ræða neitt að ráði um hverja einstaka af þessum brtt., sem ég er við riðinn, því að sumpart eru þeir menn, sem flytja þessar brtt. með mér, búnir að tala fyrir þeim og skýra þær, og sumpart munu þeir gera það hér á eftir. En ég skal þó minnast á það, að ég hefi gert ásamt samþm. mínum brtt. um, að þremur mönnum verði veittur nokkur styrkur, og eru það allt menn, sem telja verður til listamanna og heyra undir þann lið. Það er búið að mæla fyrir þessari brtt., og aðalflm. hennar gat þess, að hún mundi verða tekin aftur, ef till. fjvn. um það að veita 80 þús. kr. til skálda og listamanna, sem menntamálaráð síðan úthlutaði, verður samþ., Það liggur nú í augum uppi, að það er ekkert ónæði, þó að fjvn.-maður flytji brtt. um þetta efni, af þeirri einföldu ástæðu, að fjvn. hefir alls ekkert fjallað um þessi mál að öðru leyti en því að bera fram till. um það að veita fé til þessa, sem menntamálaráð úthlutaði. Þingið sjálft er því sá eini vettvangur, þar sem ég gat komið þessari till. að. Og ég get bætt því við, að ég vona það fastlega, að þessi till. fjvn. um það, að menntamálaráð hafi með höndum úthlutun þessa fjár, verði samþ. Og ég finn alveg sérstaka ástæðu í sambandi við ummæli, sem fallið hafa um þetta frá hæstv. fjmrh., til að taka það fram, að ástæðan til þess, að ég fylgi þessari till., er ekki sú, að ég ætli menntamálaráði sérstaklega að sjá um það, að kommúnistar fái ekki styrki; ég tel það yfirleitt ekkert færara til þess heldur en þingið sjálft, ef sú stefna verður upp tekin á annað borð, heldur er ástæðan til þess, að ég fylgi því, að menntamálaráð vinni þetta verk, eingöngu sú, að ég sé ekki nokkurt annað ráð til þess að hægt sé að stöðva sig á ákveðinni upphæð, sem þinginu þyki á hverjum tíma tiltækilegt að veita í þessu skyni, heldur en þá að ákveða upphæðina í einu lagi í fjárl. og fela svo nefnd utan þingsins að skipta þessari ákveðnu upphæð. Það er alltaf svo, að þegar till. um einstaka menn eru bornar fram á Alþ., þá þykir ekki muna um það í hverju tilfelli, þó að samþ.till. um að bæta svo sem einu þús. kr. við o.s.frv. Og reynslan verður því sú, að þessi upphæð hækkar ár frá ári hjá þinginu, sem í þessu skyni er veitt, ef þingið á annað borð veitir þetta á nöfn. Út af þeim miklu umr., sem farið hafa fram um þetta mál utan þings og innan, þykir mér ástæða til, úr því að ég stóð upp á annað borð, að taka þetta fram. hetta er orsökin til þess, að ég er ákveðinn í því, eins og á síðasta þingi, að fylgja till. um það að veita 80 þús. kr. í þessu skyni og fela menntamálaráði að úthluta því.

En auk þess að ég hefi nú verið meðflm. að till. um að veita þessum þremur mönnum styrk, þá hefi ég einnig gerzt meðflm. að till, sem fjallar um nokkur fjárframlög til nauðsynjamála í mínu kjördæmi. Ég skal fara mjög stutt út í það að ræða þessar till., af þeirri ástæðu, sem ég gat um áðan, að, það hefir verið gert og verður gert af liðrum. Ég vil þó taka það fram, að ég get alls ekki litið svo á, að till. um Siglufjarðarskarð sem ég er meðflm. að, sé í raun og veru nokkurt kjördæmamál fyrir mitt kjördæmi, þó að svo vilji til, að framkvæmdirnar eiga að vera að hálfu leyti í mínu kjördæmi. Þetta er þjóðþrifamál, að koma Siglufjarðarbæ í samband við vegakerfi landsins, vegna þess hve sérstaklega stendur á um þennan bæ, að fjöldi manna víðsvegar af landinu dvelur þar um sumartímann, innilokaður að öðru leyti en því, sem hægt er að fara á sjó. Þetta mál hefir þar af leiðandi eins mikla þýðingu fyrir menn úr ýmsum héruðum landsins eins og fyrir Siglfirðinga sjálfa. Og ég ætla ennfremur út af þessu að leyfa mér að minna á þann góða vilja, sem fram kom hér á hæstv. Alþ. á síðasta þingi til þessa máls, því að þá voru allir hv. þm. sammála um, að það þyrfti mjög að hraða því, að þessi vegur kæmist yfir Siglufjarðarskarð. Það var aðeins talið, að fjvn. hefði ekki hitt á rétta aðferð til þess að hrinda þessu í framkvæmd. En allir þeir, sem þá upp luku sinntu munni um þetta, töldu sig alveg fulla af velvilja og áhuga fyrir því, að þetta kæmist í framkvæmd. Nú vona ég, að ekki þyki svo mikið athugavert við formið á þeirri till., sem borin er fram um þetta efni, að ekki megi samþ. hana þess vegna. Ennfremur finn ég ástæðu til að geta þess út af þessari till., að mér hefði verið fullnægt með því að bæta aths. við liðinn, en hv. meðflm. mínir vildu einnig breyta upphæðinni.

Þá skal ég aðeins minnast á 12. till. á þskj. 308. Er þar farið fram á 5000 kr. til sjóvarnargarðs í Ólafsfirði og til uppfyllingar í sambandi við garðinn, fyrri greiðsla af tveimur. Ég hefi gerzt meðflm. að þessari till. af því, að ég álít, að hér sé aðeins að ræða um skyldu, sem ríkissjóður hefir til að láta Ólafsfjörð njóta jafnmikils réttar og aðra, sem hafa komið slíkum mannvirkjum upp. Það er búið að gera þetta mannvirki. og það hefir kostað um 30 þús. kr. Ríkissjóður hefir áður veitt styrk til alveg samskonar mannvirkja á þremur stöðum a.m.k., og tel ég því, að honum beri einnig að leggja fé fram í þessu skyni, eins og t.d. á Sauðárkróki og Húsavík, en á báðum þeim stöðum ætla ég að fé hafi verið veitt úr ríkissjóði í raun og veru til nákvæmlega samskonar mannvirkja.

M.ö.o., afsökun mín fyrir því, að ég hefi gerzt meðflm. að nokkrum brtt. við fjárlögin, þrátt fyrir það að ég hafi átt sæti í fjvn., er sú, að með þessum till. er aðeins farið fram á, að Eyjafjarðarkjördæmi njóti sama réttar og ýmis önnur héruð landsins. Ég skal játa, að ef litið er á upphæðina eina, hefir Eyjafjarðarsýsla fengið ekki einasta eins mikið og sum önnur kjördæmi, heldur meira, og þetta er nú sá mælikvarði, sem ýmsir hv. þm. vilja leggja á um það, hvernig rétt sé að skipta því fé, sem sýslur fá á annað borð, hvað upphæðin er nú á hvert hérað fyrir sig. Ég álít, að þessi grundvöllur sé rangur, það eigi að miða við íbúatölu í héraðinu og að nokkru leyti við það, hvað miklar tekjur í ríkissjóð héruðin greiða. Og þegar sá mælikvarði er lagður á, þá fullyrði ég, að jafnvel þótt allar þessar till., sem bornar hafa verið fram af þeim þm., sem kosnir hafa verið af Eyfirðingum, yrðu samþ. þá væri þar með ekki samþ. neitt annað en að Eyjafjörður njóti jafnréttis við önnur héruð.

Að öðru leyti vil ég svo láta hv. meðflm. mína um það, að svo miklu leyti sem það er ekki þegar búið, að gera grein fyrir og skýra ,þessar till. En ég vænti þess, að mínir góðu meðnm. í fjvn. hafi nú sannfærzt um, að það var ekkert rangt af mér og engin brigðmælgi við þá, að gerast meðfim. að þessum brtt., þrátt fyrir það, að þær næðu ekki fram að ganga í fjvn., því að þess mega þeir sjálfir vera minnugir, að öllum þessum till. hreyfði ég í fjvn., þó að þær næðu þar ekki fram að ganga, og hét engu um það í n. að falla frá þessum óskum.