04.04.1940
Sameinað þing: 13. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í B-deild Alþingistíðinda. (73)

1. mál, fjárlög 1941

*Pétur Ottesen:

Ég býst við, að auðu stólunum hér á Alþ. þætti það skrítið, að ég, sem stend að brtt. um að taka af fjárl. fjárveitingar til einstakra listamanna og skálda og fela sérstakri n. úthlutun á þessu fé, að ég skuli samtímis því koma með brtt. um að taka einn þessara manna upp í fjárl. og honum verði veittur þar sérstakur styrkur. Ástæðan til þess, að ég hefi gert þetta, er sú, að nú stendur yfir 3. umr. fjárl , og ekki víst, hver forlög þeirrar till. verða, sem fjvn. flytur um að taka listamenn út af 15. gr. þess vegna var ekki nema um tvennt að velja., — ef svo færi, að till. n. næði ekki fram að ganga, var loku fyrir skotið, að þessi till. gæti komizt að síðar. Þess vegna varð þetta hvorttveggja að vera samferða. Ég skal taka strax fram, að ef till. fjvn. verður samþ., þá tek ég að sjálfsögðu mína till. aftur, því að þá mun ég standa á móti því, að fjárframlög til einstakra manna verði tekin inn í fjárlögin, heldur verði þessum málum ráðstafað samkv. því.

Þessi brtt. mín fer fram á það að dr. Eiríki Albertssyni á Hesti verði veittur 1200 kr. styrkur til ritstarfa. Dr. Eiríkur er einn af þeim fjölhæfustu gáfumönnum í andlegra manna stétt, sem nú eru í landinu, og auk þess mikill afkastamaður á því sviði. Það eru að ýmsu leyti miklir örðugleikar á því fyrir sveitaprest að fást við sögulegar rannsóknir, þar sem skortur er á öllum nauðsynlegum heimildum. Helzt er, að fræðimennirnir dvelji á þeim stöðum, þar sem heimildirnar eru fyrir hendi. Þetta kostar ýmiss vegna ákaflega mikla vinnu og fé, og menn. sem fást við fræðiiðkanir og búsettir eru uppi í sveit, þurfa allmikið á sig að leggja, og þannig er háttað um dr. Eirík. En hann hefir ekki talið þá fyrirhöfn eftir sér. Hann hefir ekki eingöngu sótt heimildir til Reykjavíkur til þess að afla sér undirstöðuatriða í fræðiiðkununum sínum, heldur hefir hann einnig siglt til annara landa, þar sem hann gat fyllt í þau skörð, sem voru í þessum efnum hér heima. Þetta sýnir þann ákaflega sterka vilja, sem er hjá þessum fjölmenntaða gáfumanni, til þess að kryfja okkar sagnfræði og draga fram í dagsljósið ýmislegt af því, sem nú er dulið. Sögulegur fróðleikur er runninn þjóðinni í merg og bein, og þess vegna er ekki nema eðlilegt, að fjvn. og allir þeir, sem veitt gætu þessu stuðning, þeir séu slíkum manni innan handar, sem hefir svo mikla hæfileika til brunns að bera, jafnhliða löngun og vilja til þess að láta mikið eftir sig liggja, og sjái unt, að honum verði veittur einhver stuðningur til þess.

Ég skal aðeins drepa á eitthvert merkasta verk dr. Eiríks á Hesti en það er æfisaga Magnúsar Eiríkssonar, hins merka íslenzka gáfumanns, sem bauð svo fullkomlega byrginn þrautreyndum, háttsettum embættismönnum erlendis og kom fram til mikils sóma fyrir íslenzku þjóðina. Þetta verk hefir séra Eiríkur varið við háskóla Íslands og hlotið doktorsnafnbót fyrir. Auk þess hefir dr. Eiríkur skrifað ýmislegt fleira, fræðilegs og almenns efnis, flutt fyrirlestra við háskólann, og margt fleira hefir hann í smíðum, sem þetta snertir. Hinsvegar eru kjör og kringumstæður þessa mikilhæfa fræðimanns, eins og hjá fjölda annara sveitapresta, þannig, að hann er lítt efnum búinn og á þess vegna erfitt með að helga þessum hugðarefnum sínum krafta sína. Er nauðsynlegt, að hann fái styrk frá því opinbera til þess að geta hrundið fyrirætlunum sínum í framkvæmd.

Ef svo fer, að þingið verði leyst frá því leiðinlega verki að dæma um hæfileika fræði- og listamanna í sambandi við úthlutun fjár til þeirra, og það verði falið sérstakri n. eða einhverjum öðrum aðilum, ætlast ég til þess, að þeir menn, sem hafa það starf með höndum, kunni að meta hæfileika og áhuga dr. Eiríks Albertssonar við ritstörf og fræðiiðkanir, þegar styrknum verður úthlutað. Eins ætlast ég til þess, ef þingið heldur áfram að skipta þessu fé á milli einstakra manna, að það kunni ekki síður að meta þá hæfileika, sem hér er um að ræða. Það er engin ástæða til þess fyrir mig að vila blanda mér inn í umr. fyrir hönd fjvn. Það gerir okkar frsm. og mun hann að sjálfsögðu lýsa afstöðu n. til einstakra brtt., þegar flm. þeirra hafa gert grein fyrir þeim, sem tæplega verður fyrr en á morgun.