16.03.1940
Neðri deild: 19. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í B-deild Alþingistíðinda. (734)

39. mál, slysabætur á ellilaun og örorkubætur

*Pétur Halldórsson:

Frv. þetta fer fram á, að hækkaðar séu með vísitölu þeirri, sem fram kemur við rannsókn dýrtíðarinnar, slysabætur, örorkubætur, dánarbætur og ellilaun. Ég tók, eftir því við 1. umr., að hæstv. félmrh. benti réttilega á, að það væri næsta ólíkt efni, sem talað er um í þessu frv., þar sem í 1. gr. þess eru taldar bætur handa þeim, er notið haf. sérstakra trygginga og greitt iðgjald til tryggingarinnar, en í 2. gr. er gert ráð fyrir upphæð á ellilaun og örorkubætur, sem greiddar eru án sérstakrar ráðstöfunar móttakanda, þ.e. sú starfsemi hefir ekki eðli trygginga.

Um fyrra atriðið gat hæstv. ráðh. þess, að sennilega væri ekki hægt að hækka dagpeninga, örorkubætur og dánarbætur til slysatryggðra manna eða skylduliðs þeirra, sem keypt hefðu tryggingu hjá slysatryggingu ríkisins, nema því aðeins, að á móti kæmi hækkun iðgjalda til stofnunarinnar. Og hæstv. ráðh. bætti því við, að ekki þyrfti annað en hækka iðgjöld atvinnurekenda til tryggingarstofnunarinnar. Þetta er auðvitað rétt, því að það eru þeir, sem bera kostnaðinn. En nú gerir hv. allshn. ráð fyrir því, að þessar bætur hækki án þess að gerðar séu sérstakar ráðstafanir um hækkun iðgjalda, og það verður ekki séð af áliti n., að gerð hafi verið nein rannsókn um það, hvort unnt sé að greiða þessa dýrtíðaruppbót lengur en á árinu 1940 án hækkunar iðgjalda. Mér virðist, að þurft hefðu að fylgja upplýsingar um það, hve lengi unnt væri að greiða dýrtíðaruppbót á þessar bætur án iðgjaldahækkunar. Þessu er kannske erfitt að svara, en hæstv. ráðh. reiknaði með því í ræðu sinni, að þessi dýrtíðaruppbót gæti numið 15% af öllum bótum slysatryggingarinnar. Það kann að vera, að stofnunin sé svo vel stæð, að hún sé þess megnug að greiða þessa 15% hækkun eða meira um nokkurt skeið, en dýrtíðin getur orðið meiri, og þá fer þessi uppbót hækkandi, svo sem frv. gerir ráð fyrir.

Í 2. gr. frv. er veitt heimild til þess, að greidd verði sama uppbót á ellilaun og örorkubætur, er lífeyrissjóður Íslands leggur fram árlega.

Það er réttilega tekið fram um þennan lið, að framlag lífeyrissjóðs Íslands er ekki nema lítill hluti af því fé, sem greitt er í þessu skyni úr opinberum sjóðum árlega. hetta byggist n því, að lífeyrissjóður leggur fram til þessara mála á móti bæjar- og sveitarfélögum. En síðan þetta fyrirkomulag var tekið upp hefir framlag lífeyrissjóðs í hlutfalli við framlög bæjar- og sveitarfélaga farið ört minnkandi á ári hverju. Ég vil leyfa mér að spyrja hv. allshn., hvort hún hafi athugað, hvernig þessu er farið á síðustu árum. Ef ég man rétt, var framlag lífeyrissjóðs upphaflega yfir 70% á móti framlögum bæjar- og sveitarfélaga, en nú mun svo komið, að framlag lífeyrissjóðs er eitthvað yfir 20%, þ.e. hann leggur fram 1/4 eða 1/5 hluta af því fé, sem greitt er til ellilauna og örorkubóta, en sveitarsjóðir og bæjarsjóðir eða 3/4. þetta er bent í frv. sjálfu, og hefir hv. allshn. án efa veitt því athygli, en nú vildi ég spyrja: Eru líkur til þess, að bæjar- og sveitarfélög geti lagt á móti þessari dýrtíðaruppbót að sínu leyti?

Ég held, að þessi lög hafi valdið því, að sveitarstjórnir hafi freistazt til þess að verja meira fé í þessu skyni en annars hefði verið gert, til þess að fá framlag lífeyrissjóðs á móti. þegar framlag lífeyrissjóðs nam um 70% (ef það er rétt, sem mig minnir), var ekki nema eðlilegt, að þau legðu kapp á að ná þessu framlagi, en þetta hefir ekki stöðvazt, þótt framlag lífeyrissjóðs færi lækkandi. Nú er þetta framlag sveitar- og bæjarfélaganna orðið svo hátt, að mér er það mjög til efs, að þau geti óviðbúin lagt fram fulla dýrtíðaruppbót.

Það er hörmulegt, að ekki skuli vera hægt að bæta upp dýrtíðina, sérstaklega þeim mönnum, sem ekki hafa neinar aðrar tekjur en þessar sér til framfæris. Mér er næst að halda, að meginið af því fólki, sem nýtur örorkubóta og ellilauna, þeirra sem um ræðir í 2. gr. frv., hafi í rauninni ekkert eða sáralítið eigið aflafé að lifa af. Um þá, sem hafa ýmsar fleiri tekjur eða bjargarmöguleika, gegnir kannske dálítið öðru máli. En það eru ekki þessi sjónarmið, sem eiga að ráða því, hvort alþingi fer hér inn á braut, sem það veit ekki, hvort fær reynist, og er stórkostlega varhugaverð. Og þetta er ekki síður varhugavert frá því sjónarmiði, að hér er reynt að lokka bæjar- og sveitarfélög til að taka á sig þungar byrðar. Hæstv. félmrh. hefir reiknað út, hver hækkunin á framlagi lífeyrissjóðs Íslands til ellilauna og örorkubóta ætti að verða samkv. frv., og skilst mér, að af hálfu bæjar- og sveitarfélaga ættu að koma á móti a.m.k. 180 þús. kr. á árinu, kannske 200 þús. Fyrir utan það, að fyrirkomulag þessarar styrktarstarfsemi er ákaflega flókið og óheppilega byggt upp, eins og alltaf er að koma betur og betur í ljós, og veldur bæjar- og sveitarsjóðum ýmsum kostnaði, sem annars myndi sparast, hlýtur lífeyrissjóðsframlagið að freista þeirra til útgjalda, sem geta sökkt þeim sjálfum í botnlaus vandræði.

Mér hefði þótt rétt, að frv. sem þessu hefði fylgt einhver greinargerð fyrir því, hvernig fé lífeyrissjóðsins og framlögum bæjar- og sveitarfélaga hefir verið varið, hve mikil framlög bæjar- og sveitarfélaganna hafa verið og framlög lífeyrissjóðs, hlutfallslega hvort móti öðru. Ég held, að þá mundu koma fram athyglisverðar upplýsingar. Mér þætti eðlilegt, að helztu atriði þeirra mála kæmu fram, þótt ekki verði fyrr en við 3. umr. frv., og vil beina þeim tilmælum til nefndarinnar.

Verði frv. samþ., má telja, að gefið sé fyrirheit um það, að dýrtíðin skuli bætt upp framvegis úr ríkissjóði, hvernig sem hún vex á næstunni eða næstu árum. Einmitt þetta fyrirheit er það, sem lokkar bæjar- og sveitarfélögin allra mest til að reisa sér hurðarás um öxl. Hvernig fer svo, ef Alþingi verður að kippa að sér hendinni á næsta ári? Ég held, að formælendur frv. ættu að gera grein fyrir, hvert það stefnir, áður en það er samþ.