16.03.1940
Neðri deild: 19. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í B-deild Alþingistíðinda. (735)

39. mál, slysabætur á ellilaun og örorkubætur

Frsm. (Vilmundur Jónsson):

Ég mun ekki ræða um það, hvort starfsemi lífeyrissjóðs Íslands sé að öðru leyti eins og hún ætti að vera, né um tryggingarlöggjöfina yfirleitt á þeim grundvelli, sem hv. 4. þm. Reykv. gerði, heldur um þá dýrtíðaruppbót, sem ríkissjóði er talið siðferðislega skylt að bjóðast til að greiða hinu tryggða fólki fyrir sitt leyti. Þess er ekki að vænta, að slík uppbót fáist fyrir ekki neitt, en það á að veita hana samt. Það má gera ráð fyrir, að hækka þurfi iðgjöld til slysatryggingarinnar meðfram vegna uppbótarinnar. Það hefir ríkisstj. í sinni hendi, og er upplýst, að þess mundi þurfa á árinu þótt frv. væri ekki samþ. Ástæðan er sú, að dýrtíð hækkar kostnað af mörgu öðru, sem tryggingarnar standa straum af, svo sem læknishjálp og lyfjum og sjúkrahússvist.

Um bæjar- og sveitarfélögin er það að segja, að þau ráða sjálf, hvort þau leggja á sig þær byrðar, sem þarf til að njóta fyrirhugaðra fríðinda lífeyrissjóðsins, þ.e. uppbótarinnar fyrir gamalmenni sín og öryrkja. vilji þau það ekki, nær þetta ekki lengra. Með þessu er Alþingi aðeins að gera sína skyldu, ekki að skipa bæjarfélögunum fyrir um neitt. Hér er og aðeins að ræða um lög til eins árs. Á næsta þingi liggur það fyrir, hvernig þau hafa þá gefizt í framkvæmdinni.