16.03.1940
Neðri deild: 19. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í B-deild Alþingistíðinda. (738)

39. mál, slysabætur á ellilaun og örorkubætur

Frsm. (Vilmundur Jónsson):

Ég vildi aðeins geta þess fyrir hönd allshn., að innan hennar var enginn ágreiningur um þann skilning á 1. gr. frv., að uppbótin skyldi miðast við vísitölu kauplagsnefndar óskerta eins og hún er á hverjum tíma. Ljóst var það ekki, þegar hv. 4, þm. Reykv. var að spyrja um, vort þetta fólk ætti að fá dýrtíðina uppbætta „að fullu“. Hann ætti að vita, að vísitala kauplagsnefndar er ekki þannig reiknuð, að tryggt sé, að fullar uppbætur fáist, auk þess sem hún hækkar ekki nema 4 sinnum á ári, en dýrtíðin dagvöxtum.

Þegar hv. þm. lítur svo á, að mikill hluti verkamanna hafi ekkert gagn og e.t.v. fremur skaða af kauphækkunum, hlýtur það að vera enn meiri ástæða fyrir hann til þess að vera með þessu frv. Hann veit og viðurkennir, að þorri þessa fólks, sem styrkjanna nýtur, hefir hvorki eign né atvinnutekjur að lifa af, og verður, ef það á að hjara, að liggja uppi á venzlafólki sínu, — því meir sem styrkurinn endist lakar vegna dýrtíðar. Og langflest er það vitanlega á framfæri verkamanna, sem samkv. kenningu hv. þm. hafa beðið fjárhagslegt tjón vegna lögtryggðra uppbóta á launum sínum. Það hafa þegar verið gerðar ráðstafanir til þess að borga uppbót á laun opinberra starfsmanna, sem ekki kemur til mála, að missi atvinnu sakir þeirrar uppbótar, hvað sem kann að koma fyrir með verkamenn. Hv. þm. getur hugað að því. hvort ekki sé rétt að hafa eitthvert samræmi milli þess og uppbóta á styrkjum trygginganna, úr því að hann vantar einhvern slíkan samanburð til að skera úr því, hvaða tilkall þetta fólk hafi til að lifa af dýrtíðina.