26.03.1940
Neðri deild: 22. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í B-deild Alþingistíðinda. (748)

39. mál, slysabætur á ellilaun og örorkubætur

Skúli Guðmundsson:

Ég hefi borið fram brtt. við 1. gr. frv., á þskj. 203. Er hún á þá leið, að í stað orðanna „sömu hundraðstölu og vísitala kauplagsnefndar hækkar um“ komi: 3/4 þeirrar hundraðstölu, sem vísitala kauplagsnefndar hækkar um. Ég tel eðlilegt að láta það hlutfall haldast milli slysabóta, dánarbóta og dagpeninga og kaupgjaldsins sem verið hefir að undanförnu. En eins og hv. þdm. er kunnugt um, þá er kauphækkun sú, sem verður samkv. gengisl., mest 75% af þeirri hækkun á verðlagi, sem orðið hefir samkv. vísitölu kauplagsnefndar. Ef mín till. verður samþ., hækka þannig þessar bætur hlutfallslega eins mikið og kaup hjá þeim, sem lægst laun hafa. Þetta er í samræmi við það, sem kemur fram á þskj. 143, þar sem segir í nál. allshn., að sanngjarnt sé að hækka bætur þessar svipað því, sem verið hefir um kaupgjald. Ég sé ekki ástæðu til að bera fram fleiri brtt., en vænti þess, að brtt. á þskj. 203 verði samþ.