12.03.1940
Neðri deild: 15. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í B-deild Alþingistíðinda. (766)

61. mál, umferðarlög

*Bjarni Ásgeirsson:

Þessi lagabálkur er nýkominn fram, og hefir því gefizt lítill tími til athugunar. Ég vildi þó láta í ljós mitt álit um það, að tekinn yrði upp hægri akstur í staðinn fyrir vinstri. Ég álít, að það sé alveg óþarft að fara að breyta til í þessu efni. Mér finnst mestu skipta, að aksturinn sé eðlilegur. Vinstri aksturinn er orðinn okkur mjög eðlilegur og tamur, og býst ég við, að það stafi bæði af venju og sömuleiðis af því, að okkur er ákaflega eiginlegt að víkja til vinstri. Ég sé þess vegna enga ástæðu til þess að fara að breyta til. Það hagar allt öðruvísi til þar, sem svo að segja daglega er ekið yfir landamæri og það getur valdið miklum truflunum, ef akstursreglur eru ekki í samræmi. Þetta kemur ekki til greina hjá okkur. En jafnvel þó að einstakir menn hér heima taki sig upp með bifreiðar sínar og ferðist í þeim erlendis, þá eru þeir ekki of góðir til þess að setja sig inn í umferðarreglur þess lands, sem þeir ferðast um. Eins er með þá, sem ferðast hingað og aka hér bifreiðum sínum; þeir geta sett sig inn í umferðarreglurnar hér. Meðan England og Svíþjóð halda uppi vinstri akstri, sé ég enga ástæðu til þess fyrir okkur að fara að taka upp hægri handar umferð. Það væri miklu meiri ástæða til þess fyrir Svíþjóð heldur en fyrir okkur, og ég geri ráð fyrir, að það verði langur tími, sem líður, þangað til Englendingar taka upp hægri akstur. Ég sé ekki, að það sé nein þörf fyrir okkur að vera að „despendera“ af Dönum í þessu tilfelli, og ég sé ekki, að það geri neitt til, þó að við höldum vinstri akstri. Hann er kominn inn í okkur, og jafnvel þó að einhverstaðar suður í Evrópu sé hægri akstur, þá held ég, að við getum haldið okkar reglu eins og áður.