12.03.1940
Neðri deild: 15. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í B-deild Alþingistíðinda. (767)

61. mál, umferðarlög

*Sigurður Kristjánsson:

Ég vil taka undir það, sem hv. þm. Mýr. sagði. Ég tel það alveg þarflaust að vera að breyta þessu atriði í umferðarreglunum, að menn skuli víkja til hægri í stað vinstri. Það er kannske rétt að gera sér grein fyrir því, af hverju þessi regla skapaðist, að menn skyldu víkja til vinstri. Það kann að vera, að við höfum verið að herma eftir Englendingum, en ég held, að áður en þessi regla varð til hafi menn vikið til vinstri. Það er mönnum eðlilegt að víkja til vinstri, og það er að mörgu leyti öruggara að hafa umferðina hægra megin við sig, til þess að geta haft hægri höndina á þeim hlut, sem hætta kann að stafa af. Þetta kemur ekki að verulegu gagni, þar sem um svo þung og hraðamikil farartæki er að ræða eins og bifreiðar. En það virðist þó, að eðlilegt sé, að sama reglan gildi, hvort sem um er að ræða gangandi mann, hest, hestvagn eða bifreið.

Ég geri ráð fyrir, að það, sem vakir fyrir með þessari breyt., sé það, að verða í meira samræmi við aðrar þjóðir. En það er vert að athuga það, eins og hv. þm. Mýr. tók fram, að við eigum þess engan kost að aka hér yfir nein landamæri. Og ef menn eru erlendis og hafa þar akstur, þá verða þeir að setja sig inn í þær umferðarreglur, sem gilda í hverju landi. Við búum einna næst Bretlandi og þar tíðkast vinstri akstur, en förum við til Norðurlanda, þá lendum við í hægri akstri. Það er því vitanlegt, að hver sá, sem kann að aka erlendis, hann verður bara að þekkja, hvaða reglur gilda í hverju landi. Einnig verða þeir útlendingar, sem hingað koma í því skyni að aka um landið, að gæta hins sama.

Ég er ekki í neinum vafa um það, að mönnum verður ótamt að breyta um, og það er alveg óhugsandi annað en að slys muni af því leiða. En auk þess sýnist mér það hálfkátlegt, þegar sagt er, að menn skuli halda sér á vinstri brún akbrautarinnar, rétt eins og þeir eigi að halda sér þar dauðahaldi. Annars býst ég við því, að ég og fleiri hv. þm. muni koma fram með brtt. við síðari umr.