12.03.1940
Neðri deild: 15. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í B-deild Alþingistíðinda. (768)

61. mál, umferðarlög

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Þessi breyt., sem hér er farið fram á, að breytt verði vinstri akstri í hægri akstur, er vitanlega stórvægileg breyt. En ég hefi samt sem áður, eftir talsverða yfirvegun, ekki hikað við það að verða vegamálastjóra sammála um það, að við eigum að ráðast í þessa breyt. nú. Þegar talað er um það, hvort kunni að vera betra, að víkja til vinstri eða hægri, þá verður að álíta, að hvorttveggja sé jafnöruggt, eftir að menn hafa vanizt því. Þeir, sem ekið hafa bifreiðum þar, sem hægri akstur er, komast að þeirri niðurstöðu, að hann er alveg jafnöruggur eins og vinstri aksturinn. Það er þess vegna frekar tilviljun, að tekin voru upp í vegal. íslenzku, 1905 að mig minnir, ákvæði um það, að víkja skyldi til vinstri. Sem ástæðu fyrir því, að vinstri reglan var tekin upp, hefi ég heyrt nefnt, að kvenfólki, sem reið í söðli, stafaði hætta af hægri umferð. Ég hefi heyrt, að þetta hafi verið mjög um deilt atriði hér á þinginu á sínum tíma, og var það eðlilegt, því að þetta var mjög verulegt atriði í þá daga. En eins og við vitum, þá gildir vinstri reglan ekki nema í tveim löndum Evrópu. Það hefir mikið verið gert að því nú á seinni árum af Þjóðabandalaginu, að koma því til vegar, að hægri umferð yrði tekin upp í öllum löndum. Þetta mál hefir verið mikið rætt í Svíþjóð nú á seinni árum, að tekinn yrði upp hægri akstur. En þegar þetta mál var til rannsóknar fyrir fjórum árum, þá kom í ljós, að það kostaði 4 millj. kr. að breyt. umferðarreglunum. Nú er talið, að það myndi kosta allt að 18 millj. kr., en samt er talið mjög líklegt, að í það hefði verið ráðizt nú alveg á næstunni, ef styrjöldin hefði ekki brotizt út. Á seinni árum hefir það farið mjög í vöxt, að Íslendingar, sem ferðazt hafa til útlanda, taki með sér vagna sína og ferðist á þeim um Evrópu, þar sem gagnstæðar umferðarreglur gilda. Hefir þá komið í ljós, að það er mjög óþægilegt að hafa ekki vanizt hægri umferð. Auk þess hefir farið mjög í vöxt, að útlendingar koma hingað á bifreiðum sínum til þess að ferðast sér til ánægju. Það er þess vegna mikilsvert atriði, ef við eigum að gera okkur vonir um, að Ísland verði ferðamannaland, að koma á hægri umferð. (BÁ: Það eru mest Englendingar, sem ferðast hingað). Það eru ekki mest Englendingar, sem koma hingað til að ferðast um landið; þeir dvelja mest við laxveiðiár. Það eru ýmissa annara þjóða menn, sem koma hingað til að ferðast um landið á bílum. Í því er engin framtíð, að Ísland sé ferðamannaland með þeim hætti, sem verið hefir hingað til, að menn komi á stórum skipum og dvelji hér einn eða tvo daga. Framtíðarlausn á því máli, að Ísland verði ferðamannaland, verður einungis með því móti, að menn komi til landsins til að dvelja hér lengri tíma með sín nauðsynlegu farartæki. Með því móti einu getur Ísland að mínu áliti orðið ferðamannaland, svo að við getum nokkrar verulegar tekjur af því haft. Með tilliti til þessa er eðlilegt, að við höfum þær sömu umferðarreglur, sem víðast tíðkast í öðrum löndum. Það eru allar líkur til þess, að þær þjóðir, sem ennþá hafa vinstri umferð, breyti til og taki upp hægri umferð.

Ég álít, að af þessari breyt. verði engin slysahætta. Það er gert ráð fyrir, að l. gangi í gildi 1. janúar. Og það er gert ráð fyrir því samkv. þeirri reynslu, sem fyrir hendi er í því efni, þar sem þessu hefir verið breytt, að slysahætta sé minnst á þeim tíma. Og það er ætlazt til þess, að menn geti vanizt því smátt og smátt, þannig að með vorinu geti menn verið búnir að fá nægilega æfingu í umferðarreglunum, þegar umferðin eykst aftur á vegum úti.

Enn er það ótalið, sem ekki er hægt að komast hjá að benda á, að þegar gerð eru vegamerki og allt viðvíkjandi umferð og umferðartækni, sem framleitt er, þá er það álit framleitt fyrst og fremst með tilliti til þess, að umferð sé til hægri. Þess vegna er það, að það á að vera tvímælalaust til hægðarauka fyrir okkur að vera í tölu þeirra, sem hafa hægri akstur - þeirra þjóða, sem fylgja almennu reglunni, en ekki undantekningunni.

Af þessum ástæðum hefi ég talið það tvímælalaust rétt, að við ættum að breyta til eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. Það er betra að hafa sömu umferðarreglur og þjóðir yfirleitt hafa í öðrum löndum, bæði vegna þess, að þeir, sem fara héðan til útlanda, hafa af því hægðarauka, og einnig hafa þeir „túristar“, sem hingað koma, hægðarauka af því. Í þriðja lagi af því, sem ég gat um áðan, að framleiðsla tækja þeirra, sem lúta að umferð, er miðuð við hægri umferð. Í fjórða lagi af því, að það kostar ekkert nú að breyta þessu, en það getur kostað töluvert síðar. Af þessum ástæðum álit ég, að við eigum ekki að halda áfram vinstri akstri. Það er enginn ábati að halda honum, tekur okkur hálft ár að breyta til og venja okkur af honum, en margt bendir á, að við ættum að sleppa honum. Og það er enginn vafi á því, að Svíar, sem hafa haldið í þessa sömu reglu og við, að hafa vinstri umferð, hefðu fyrir löngu verið búnir að breyta til og taka upp hægri umferð, ef það kostaði þá ekki eins mikið og það mun gera, að ég nú ekki tali um, ef það kostaði þá ekkert, eins og hægt er að segja um okkur.

Ég mæli þess vegna með samþykkt þessa frv. eins og það er.