12.03.1940
Neðri deild: 15. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í B-deild Alþingistíðinda. (769)

61. mál, umferðarlög

*Frsm. (Gísli Sveinsson):

Ég tel óþarft að lengja umr. mikið um þetta mál á þessu stigi þess og hefi í sjálfu sér ekki miklu við ræðu hæstv. forsrh. að bæta.

Til andmæla þessu frv. hafa nú staðið upp tveir hv. þm. hér í hv. d., þeir þm. Mýr. og 6. þm. Reykv., — og sá síðarnefndi er þá einnig búinn að segja um það sitt síðasta orð og farinn burt úr d.

Þetta mál getur kannske nokkuð orkað tvímælis. Óþarft er þó að taka því svo sem það sé eitthvert ódæði, sem hér sé verið að bera fram, því að þessir hv. þm., sem stóðu hér upp áðan til andmæla frv., hafa engan tíma haft, eins og þeir líka sjálfir sögðu, til þess að kynna sér málið. Þetta mál snertir hina afturhaldssamari þætti í sálarlífi þessara manna óþarflega mikið. Vil ég þó ekki með mínum orðum binda samvizku þeirra eða annara manna í þessu máli, því að þetta er í raun og veru ekki svo voveiflegt mál eins og þeir ímynda sér. T. d. liggja fyrir því góð rök og umsagnir, að þar, sem þessi breyt. hefir verið gerð á umferðinni, hafa menn vanizt henni ótrúlega fljótt, svo fljótt sem menn gátu ekki ímyndað sér fyrir fram. Á nokkrum klukkutímum átta menn sig á þessu með nokkrum undirbúningi, svo að ekki skeikar upp frá því. Í Austurríki var vinstri akstur áður en það var sameinað Þýzkalandi. Þá var gerður nokkur undirbúningur undir að hefja breyt. á þessu á næturþeli. Og af þeim, sem með völdin fara þar, er talið, að engin slys hafi orðið af þessu, því að við talningu slysa kom í ljós, að þau voru alls ekki fleiri fyrst eftir að þessi breyt. var gerð heldur en ella. Það getur nú verið, að einhverjir væru hér á landi, sem væru tornæmari og gætu ekki skilið þetta, heldur álpuðust öfugt við umferðarreglurnar og breyttu ekki til, þó að umferðarreglunum væri breytt. En ég get ekki búizt við, að það yrði mikið um slíkt, því að þeir, sem farið hafa héðan til útlanda og verið þar, sem hægri umferð er, hafa vanizt henni fljótt. Maðurinn er ekkert annað en vani, og allt hans far er háð umhverfinu. Menn venja sig fljótt við hvað eina, einkum þegar það kemur fram með þeirri áherzlu, sem krefur, að maður taki fullt tillit til þess sjálfs manns vegna.

Ég skal geta þess, að Svíþjóð er í þann veginn að breyta til um umferðarreglur hjá sér. Það eina, sem hamlar þeirri breyt. nú, er það, að það mundi verða gífurlega mikill kostnaður við það. Og þó að Svíar bíði ekki nema 2 ár enn með að breyta þessu, þá mun kostnaðurinn við það tvöfaldast. Og þessu hefði nú þegar verið komið fram í Svíþjóð, ef ekki hefðu önnur mál hindrað það. Það er athugandi, hvort við í þessu efni eigum að haga okkur eftir Evrópu nærri því allri, en ekki Austur-Evrópu, sem má telja helzt Rússland og Balkanlöndin. Okkur koma vitanlega hin ríkin meira við. Vesturheimur er einnig með hægri umferð.

Þetta frv. hefir verið borið undir fleiri aðila, sem má nokkurt mark á taka, svo sem lögreglustjóra þessa bæjar, því að því er ekki að neita, að breyt. á umferðarreglum áhrærir ekki hvað sízt bæina og grennd þeirra. Allur akstur er þar varhugaverðari en úti á landi. Lögreglustjóri Reykjavíkur telur, að það eigi að breyta til í þessu efni og að sjálfsagt sé að gera það meðan kostnaður við það er svo sem enginn, eins og vikið hefir verið að. Fleiri hafa hér verið til kvaddir til álita og umsagnar í málinu, sem sjálfsagt má fulltreysta, að hafi eins mikið og enda meira vit á því en þeir hv. þm., sem nú í fyrsta sinn hafa séð málið á þessum fundi. Nú mega hv. þm. ekki halda, að þeir fái að bragði því um þokað að breyta því í þessu máli, sem margir menn hafa talið réttast, og verður það, sem kemur fram til andmæla gegn málinu, að vera eins vel rökstutt og það, sem fram er borið því til framgangs, ef það á að verða tekið til greina.