12.03.1940
Neðri deild: 15. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í B-deild Alþingistíðinda. (770)

61. mál, umferðarlög

*Bjarni Ásgeirsson:

Það, sem ég sagði og hv. síðasti ræðumaður var að reyna að vitna í, var, að ekki væri hægt að átta sig á einstökum atriðum þessa frv. við fyrsta yfirlestur og í fljótu bragði. En hitt var ekki meining mín, að segja neitt í þá átt, að ekki væri fljótlegt að átta sig á hlutum eins og muninum á hægri og vinstri.

Það má deila um það, hvorir okkar séu afturhaldssamari, hv. þm. V.-Sk. eða ég og hv. þm. V.-Húnv. Það er a. m. k. talið frekar afturhaldsmerki, að fara frekar til hægri en vinstri.

Að menn séu svo tornæmir, að þeir geti ekki lært hægri akstur, nær auðvitað ekki nokkurri átt. Ég ímynda mér, að það sé svo fljótlært, að þeir fáu menn, sem skreppa með bíl sinn til útlanda, geti mjög fljótt áttað sig á því, svo að ekki valdi verulegum truflunum, þó að þeir hafi vanizt öðru. Tornæmi kemur hér ekki til greina. Mér finnst eðlilegt, að í Svíþjóð sé lögð á það nokkur áherzla, að breytt verði til og tekinn upp hægri akstur, þar sem landið er umkringt af hægri akstri í öllum löndunum í kring. En slíku er ekki til að dreifa hér. Við erum heimur út af fyrir okkur í þessu efni og þurfum ekki að taka tillit til annara en sjálfra okkar um umferðarreglur. En eigi á annað borð að taka tillit til útlendra manna, sem hingað koma, og gera þeim hægara fyrir um að læra þær reglur, sem hér eru fyrir akstri, þá eigum við fyrst og fremst að taka tillit til Englendinga, því að langflestir þeir menn, sem koma hingað með bíla sína til að aka þeim um landið, eru Englendingar. Það mælir með því að halda við þann akstur, sem við höfum. Hér hafa nú verið flutt fram öll rök, sem hægt er að færa fram fyrir því að breyta hér til og taka upp hægri akstur, en ekkert af þeim hefir getað sannfært mig um, að þetta mál sé annað en hálfgerð fordild.