26.03.1940
Neðri deild: 22. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í B-deild Alþingistíðinda. (781)

61. mál, umferðarlög

*Sigurður Kristjánsson:

Ég hafði tekið eftir þessu, sem hv. 7. landsk. bar fram skrifl. brtt. um, og ég tel rétt, að samþ. verði þessi brtt. hans, ef ekki verða samþ. brtt. okkar hv. þm. Mýr., sem reynsluatkvgr. áðan virtist benda til, að myndi verða gert. Ef svo fer, geri ég ekki ráð fyrir, að hv. þm. haldi fast við þessa skrifl. brtt. sína.

Út af því, sem hv. þm. V.-Sk. sagði um þetta atriði og skýringarnar á því, þá get ég enga skýringu fundið í aths. við gr. í grg. Þar segir, að þá sé maðurinn ekki í hættu af þeim bíl, sem á eftir honum komi. Þetta er engin skýring. Það eru ekkert meiri líkur fyrir því, að bifreiðarstjóri sjái mann betur, ef hann horfir framan í hann, en ef hann horfir aftan á hann. Ég held, að það geti ekki verið annað en firra. En það eru mörg dæmi, sem sanna, að það þýðir ekki, þó að gangandi maður sjái bifreið, sem kemur á móti honum, vegna þess að enginn maður gerir ráð fyrir því fyrir fram, að bifreið muni aka yfir sig. Og það eru dæmi til þess, að ekið hefir verið á gangandi mann, sem hefir séð bifreiðina, sem ók á hann, en maðurinn gerði bara ráð fyrir, að bifreiðin mundi víkja úr vegi, en bifreiðarstjórinn mundi ekki aka á sig, þegar hann, gangandi maðurinn, var á réttum kanti. Það varð nýlega slys í slíkum kringumstæðum. Sá, sem yfir manninn ók, sagði, að hann hefði getað kastað sér út af veginum, - en þá hefði maðurinn orðið að kasta sér út í sjó í því tilfelli. Gangandi maðurinn sagði, að sér hefði ekki dottið í hug, að bifreiðin mundi aka á sig, og þess vegna hefði hann ekki vikið. Ég sé nú ekki, hvers vegna það er betra fyrir mann að láta aka yfir sig bifreið, sem hann sér, heldur en bifreið, sem hann ekki sér.

Ég held, að menn geri hér ráð fyrir allt öðrum skilyrðum heldur en hér á landi eru til staðar víða. Ég held, að menn geri hér einungis ráð fyrir breiðum umferðargötum, þar sem manni gæti orðið það á, sem gengur annars á jaðri vegarins, að vera alllangt inni á veginum, vegna þess að vegurinn er breiður. En hér á landi er það víða svo, að menn verða að vera úti á jaðri á vegi til þess að geta mætzt. Og þess vegna er það oftast svo, að gangandi maður er úti á vegarjaðri, nema hann sjái vel, að engin ökutæki séu á veginum, hvorki á eftir né á undan. En ég hefi heyrt af skilríkum mönnum, eins og hv. 7. landsk., sagt, að það hefði komið í ljós við rannsókn slysamála, að það væri algengara, að ekið væri á menn af bifreiðum, sem koma á eftir þeim, heldur en af bifreiðum, sem komu á móti þeim. Þetta efast ég ekki um, að sé rétt hermt. En eftir eðli málsins verð ég að álíta það hendingu, að svona hefir viljað til, og að einhver atvik hafi þar um ráðið önnur en þau, að meiri líkur séu fyrir, að bifreið, sem á eftir kemur, aki yfir menn, en bifreið, sem kemur á móti þeim.