26.03.1940
Neðri deild: 22. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í B-deild Alþingistíðinda. (783)

61. mál, umferðarlög

*Garðar Þorsteinsson:

Ég vildi fyrst spyrja hæstv. forseta, hvort ég þurfi að spyrja hv. 1. varaforseta (GSv), hvort ég megi tala í málinu, því að það var svo að heyra á hv. þm. V.-Sk., að hann hefði verið búinn að slá því föstu, að umr. um málið væri lokið. En ég vil segja þessum hv. þm., að ég gat ekki talað um það atriði málsins, sem hann átti við, nema með því að gera mig sekan um að tala um annað mál, sem ekkert kom þessu máli við. Það var ekkert í frv. til bifreiðal. um það, hvernig gangandi menn eigi að haga sér. Ég gat heldur ekki borið fram brtt. við það frv. viðvíkjandi þessu síðara máli, umferðarlagafrv. Mér var ekki frjálst að taka til máls um þetta atriði fyrr en umferðarlagafrv. kom á dagskrá.

En það er misskilningur hjá hæstv. ráðh., ef hann telur, að í þeim tilfellum, sem þau slys urðu, sem hann nefndi, hefðu þau ekki alveg eins getað orðið, þó að maðurinn hefði komið á móti bifreiðinni. Í einu af þessum málum vissi gangandi maðurinn um þessa bifreið á eftir sér. En manninum gat ekki dottið í hug, af því að hann var á réttum vegarkanti, að bifreiðin mundi aka á hann.

Ég er út af fyrir sig ekkert á móti hægri akstri. En það á þá að vera samræmilega ákveðið; það á þá að vera alltaf hægri umferð. Ég vil benda hv. þm. á það, að það er hætta á því, að slys vilji til á manni, sem gengur hægra megin á vegarkanti, af því að það er búið að koma því inn í meðvitund mannsins yfirleitt, að hann eigi að víkja til hægri, svo að gangi hann á vegi, þar sem ekki er gangstétt, þá gerir hann það ósjálfrátt að ganga á hægri kanti í samræmi við það, að nú, þegar vinstri umferð er, á hann að ganga á vinstra vegarkanti. Hann gerir þetta ósjálfrátt og heldur, að hann sé í fullum rétti. Bifreið kemur svo við manninn og slasar hann. Afleiðingin af því, ef 13. gr. verður samþ. óbreytt, verður þá sú, að ábyrgðin er í þessu tilfelli öll á þeim gangandi manni, í staðinn fyrir að vera á bifreiðinni, því að það stendur í þessari gr., að gangandi menn skuli gæta sérstakrar varúðar og halda sér utarlega á akbrautinni og við vinstri brún hennar, þegar því verður við komið, en jafnan víkja greiðlega fyrir ökutækjum og ríðandi mönnum yzt út á sömu vegarbrún, eða út af vegi, ef þörf er og því verður við komið. Það er þannig alltaf skylda hins gangandi manns að víkja fyrir bifreið. Það er nú þannig, að bifreiðarstjóri verður að sanna, að slysið hefði orðið (í svona tilfelli), þrátt fyrir það þótt hann hefði sýnt fulla varkárni. En þarna er þessu alveg snúið við, þannig að ef bifreið kemur við mann á götu, þá er bifreiðarstjórinn laus við sönnunarskylduna, af því að gangandi maðurinn á alltaf að víkja. Bifreiðarstjórinn hefir það á meðvitundinni, ef hann sér mann á undan bifreiðinni, sem snýr baki við honum, að sá maður eigi að víkja fyrir bifreiðinni. Ég efast mjög mikið um, að þetta sé almenn regla. Það er ákaflega óeðlilegt að lögbinda það, að menn skuli víkja til hægri, svo að þeir fá það inn í meðvitund sína, en svo allt í einu að breyta út af þeirri reglu, ef gangstétt er við veginn, þá ákveða, að þeir eigi að ganga vinstra megin á veginum. Og þegar bifreið ekur á mann, yrði útkoman sú, að í staðinn fyrir, að sá, sem fyrir slíku verður, fær eftir núgildandi l. alltaf bætur, yrði þessu alveg snúið við og sönnunarbyrðin lögð á þann gangandi mann. Þetta vil ég biðja menn að athuga. Það er engin tilviljun, að sönnunarbyrðin er nú lögð á bifreiðarstjórann. Það er gert til þess, að þeir, sem verða fyrir slysum af því, að ekið er á þá, fái bætur.

Ég vil biðja hv. þm. að athuga þessa hlið málsins áður en þeir greiða atkv. um þetta frv.