04.04.1940
Sameinað þing: 13. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í B-deild Alþingistíðinda. (79)

1. mál, fjárlög 1941

*Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti! Það er einskonar lögmál, sem gildir um fjvnm., að þeir séu hófsamir í því að bera fram brtt. við fjárl. Það er þó einn þáttur í fjárlfrv., sem fjvn. hefir ekki tekið neinar ákvarðanir um nema sem heild, það eru skáld og listamenn. Það hefir verið samþ. í fjvn., að hún legði til, að styrkir, sem væru sérstakir persónustyrkir, væru teknir út af fjárl. og afhentir menntamálaráði, eins og gert var á síðasta Alþ. Og af því hafa þessir styrkir þar af leiðandi ekkert verið ræddir í fjvn. hver út af fyrir sig. En það varð að samkomulagi, að nm. mættu hafa þar alveg óbundnar hendur um að bera fram brtt. Það er hinsvegar svo með mig, að ég hefi ekki borið fram brtt. nema þær, sem eru á þskj. 332. Að sönnu var mér sagt, að mitt nafn væri á einni brtt., sem ekkert snertir þetta mál, en það hefir verið tekið traustataki, að sönnu með góðu málefni, sem ég vili veita atkvæðisfulltingi. En mitt nafn er þó ekki tekið þar með mínu leyfi. Þær till., sem ég ber fram, má að sjáfsögðu fella alveg burt, ef þingið samþ. að fela menntamálaráði að úthluta styrkjum til skálda og listamanna. Brtt. eru allar á þskj. 352, og er þar um 2 fl. listamanna að ræða, sem ég hefi gert brtt. um, svo og fjárframlög til skálda, sem ég tel rétt að láta a.m.k. minn vilja koma fram um.

Fyrstur er þá Guðmundur Friðjónsson skáld á sandi. Ég vil leyfa mér að halda fram, að ekkert skáld eigi að hafa hærri styrk en hann, og skal ég tæra nokkur rök fyrir því, m. a. að hann er nú maður 70 ára og elztur skáldanna, og að mörgu leyti merkasta skáldið, sem nú er uppi á Íslandi. Ég ætla annars ekki að fara að ræða um verðleika þessara manna. Það er gersamlega óþarft um menn, sem eru fyrir löngu þjóðkunnir, að vera að teija afrek þeirra. En þegar fjárlfrv. var lagt hér fyrir Alþ., sá ég, að flest af skáldunum höfðu verið hækkuð í styrknum, þ.e.a.s. till. voru um hækkaðan styrk, og ég geri ráð fyrir, að það byggist á því, að peningar hafa fallið í verði og dýrtíð aukizt, og hér hefir verið gengið inn á þá braut, að hækka yfirleitt kaup í landinu, og þá hefir þótt eðlilegt, að styrkirnir til skálda og listamanna hækkuðu. Ég tók þá eftir því, að skáldin Jakob Thorarensen, Kristmann Guðmundsson og Jón Magnússon höfðu ekki verið hækkaðir. Ég hefi þess vegna lagt til með mínum till., að styrkir til þeirra hækki örlítið, það eru 300 kr. til hvers, og hækkunin samtals er þá lítil upphæð. En mér finnst, að samræmisins vegna ætti þetta svo að vera.

Þá hefi ég einnig farið fram á, að Guðni Jónsson magister væri hækkaður úr 800 kr. og upp í 1500 kr. Ég skal leyfa mér, af því að hann er nýkominn inn í fjárl., að telja upp nokkuð af hans ritstörfum. Ég tel, að það sé ákaflega illa farið, að Guðni Jónsson getur ekki eingöngu gefið sig að ritstörfum, því að hann hefir synt það með þeim ritverkum, sem hann hefir lagt hendur á, að hann er til þess fallinn að vera rithöfundur. Hann er vandvirkur rannsóknari á sviði sagnfræðinnar, þrátt fyrir hin miklu skyldustörf, sem hann verður að vinna fyrir sínu brauði, en hann hefir á fáum árum afkastað ákaflega miklu á þessu sviði. Hann hefir gefið út merkar bækur, eins og t.d. Grettissögu og Borgfirðingasögu með prófessor Sig. Nordal, og ættartölubók um 400 blaðsíður, Bergsætt. Og Guðni Jónsson hefir einnig ritað Minningarsögu Flensborgarskóla og sögu Eimskipafélagsins og hann er ritstjóri og útgefandi að merkilegu ritsafni, sem er Landnám Ingólfs Arnarsonar. Að þessum störfum liggja mjög merkilegar rannsóknir, og eftir því, sem fróðir menn segja mér, eru þessi verk unnin af mikilli vandvirkni og góðri þekkingu. Mjög margt annað liggur vitanlega eftir Guðna Jónsson á þessu sama sviði. Hann er ritstjóri að tímariti, sem kallað er Blanda og Sögufélagið gefur út, og mig minnir, að hann sjái um útgáfu á öllum fornsögum, sem endurprentaðar eru af útgáfu Sigurðar Kristjánssonar. Hann sér um endurprentun þeirra jafnóðum og þær seljast. Og ég hefi séð allmikið ritað eftir hann um önnur efni, í Skírni og víðar. Ég tel það mjög æskilegt, að þessi maður fái betri skilyrði til þess að sinna þessum sögulegu ritstörfum heldur en hægt er með því, að hann hafi mikið annað fyrir stafni, sem hann er neyddur til, til þess að geta unnið fyrir sínu brauði.

Þetta voru rithöfundarnir, sem ég ber fyrir brjósti og legg til, að hækkaður verði styrkur til. Og allir þeir styrkir samanlagðir eru líklega ekki meira en eitt til tvö þús. kr.

Þegar menntamálaráð úthlutaði styrkjum til skálda og listamanna, þá held ég, að það hafi fellt niður alla þá menn, sem fást við söng og söngfræði, að undanskildum einum manni. Nú má vel vera, að við Íslendingar eigum ekki mikið af listamönnum á því sviði, en þó er það talið, að hæfileikar Íslendinga á sviði tónanna séu mjög miklir og góðir. En auk þess, að flestir þeir menn, sem þetta leggja fyrir sig, eru fátækir menn og af fátæku fólki komnir, þá hafa þeir að sjálfsögðu fæstir átt kost á því að fá hina fullkomnustu og beztu menntun í þessum efnum, og má þess vegna vera, að þeir hafi komizt skemmra heldur en aðrir, sem betri aðstöðu hafa haft, jafnvel þó að hæfileikarnir hafi ekki verið betri eða meiri. En ég tel það mjög illa farið, að þessum mönnum sé að engu sinnt. Það má segja um þá menn, sem leggja fyrir sig listir og vísindi, á hvaða sviði sem er, að ef þeir geta ekki komizt svo langt í þeim efnum, að það beri þeim sæmilegan arð til lífsuppeldis, þá sé þeim sjálfum um að kenna, því að þeir gætu eins lagt verk í eitthvað annað sem betur væri gefið fyrir. En um þessa hluti skyldi maður dæma mjög varlega. Það eru í upplagi manna einhverjar sérstakar þrár eða hvatir, sem draga þá út á þessar brautir. Og það er nú svo, að þegar fram líða stundir, þá á þjóðfélagið þessum mönnum geysimikið upp að inna; þó að sumir hverfi í gleymsku, sem hafa ekki náð því takmarki að lifa árin og aldirnar, þá standa þó einhverjir upp úr til ómetanlegs gagns fyrir þá, sem siðar fæðast, og láta eftir sig verk til minja með þjóðinni. Það hefði kannske mátt segja um ýmsa af þeim mönnum, sem eru höfundar að okkar beztu fornritum. þegar þeir voru að vinna að þeim ritstörfum, að þetta væri fánýtt fyrir framtíðina og þeim væri nær að vinna eitthvað annað, sem vissara væri með að gefa þeim brauð. við höfum þó eignazt fyrir þessa köllun, sem þessir menn fundu hjá sér, ódauðleg verk. Mér þykir ekkert undarlegt, að það hafi þótt undarlegt uppátæki hjá þessum mönnum, sem byrjuðu að skrifa um ásatrúna fornu. En þetta hefir orðið til þess, að nú eigum við ódauðleg rit um þessi efni. Og margt er fleira í okkar fornu bókmenntum, sem vel má vera, að litlum skilningi hafi mætt hjá samtíðarmönnum þeirra, en lítur ekki þannig út frá okkar sjónarmiði. Ég hygg því, að við eigum að dæma ákaflega varlega um þá menn, sem farið hafa út á þessar brautir, jafnvel þó að þeir hafi ekki fundið þá tóna, sem standast samanburð við það bezta.

Þeir söngvarar, sem ég fer hér fram á, að verði veittur nokkur styrkur af fjárl., og hafa verið þar áður, eru þá fyrst Eggert Stefánsson söngvari. Hann hefir ferðazt víða erlendis og getið sér mikinn orðstír fyrir sín afrek. Samt er að segja um Sigurð Skagfield. Þetta eru menn, sem hafa átt við ákaflega þröng kjör að búa. Það eru hæfileikasnauðir menn til, og það kannske innan þessara veggja, sem ekki kunna að meta tónlist, en það gerir tónlistina ekki ómerkilegri, hún hefir sitt gildi fyrir því.

Þriðji maðurinn, sem ég fer fram á, að veittur verði styrkur, og hefir haft hann, er Einar Markan tónskáld. Hann fæst nú aðallega við tónsmíðar, en áður gaf hann sig aðallega við söng. Síðast nú í vetur hélt hann „concert“ og fór þar eingöngu með verk eftir sjálfan sig.

Loks er hér einn maður, Kristinn Pétursson málari. Hann hefir um mjög mörg ár fengizt við þessa list, en aldrei hlotið neinn styrk. Það er sama um hann að segja og söngvarana, að hann er fátækur maður og hefir ekki átt kost á því frekar en hinir að velja sér fullkomnustu kennslu, heldur hefir hann, eins og margur annar málari, látið sér nægja að mjög miklu leyti sjálfsmenntun. En nú stendur svo á fyrir þessum manni, að hann hefir í bráðina misst heilsuna. Honum var bannað að vinna fyrir sér í sinni grein síðasti. sumar og í það minnsta fram á þetta ár. Honum hefir verið bannað af læknum að reyna nokkurt erfiði á sig, en það er sama sem að banna honum að afla sér brauðs, því að hann hefir ekki haft sitt uppeldi af öðru en þessari grein listarinnar. Mér sýnist ákaflega vel til fallið, að hæstv. Alþ. nú í fyrsta sinni sýni þessum listamanni þá ræktarsemi að veita honum þennan lítilfjörlega styrk, sem hér er farið fram á. Ég hefi miðað mínar uppástungur um þessa styrki við þann bága fjárhag, sem við allir vitum, að er hjá okkur í ríkissjóði.

Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þetta, og þó að ég að sjálfsögðu taki aftur mínar till. um þá menn, sem áður hafa verið teknir ú styrk hjá menntamálaráði, ef till. fjvn. um að vísa þeim málum öllum þangað, verður samþ., þá vænti ég þó, að hv. þm. telji það ekki óeðlilegt, að ég haldi við þær till., sem eru um þá menn, sem menntamálaráð hefir ekki áður séð sér fært að veita styrkinn. Því að það, að menntamálaráð hefir ekki tekið þennan mann á lista hjá sér, er sennilega engu síður vegna fjárhags ráðsins heldur en hins, að því hafi ekki þótt hann viðurkenningarverður.