03.04.1940
Efri deild: 28. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í B-deild Alþingistíðinda. (794)

61. mál, umferðarlög

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég býst ekki við, að þörf verði á að halda uppi miklum umr. um þetta mál. Þeir, sem hafa kynnt sér þessi mál, hafa myndað sér skoðun um þau og þau rök, sem eru með og móti. Það hefir komið fram, að bifreiðarstjórar eru sem stendur á móti þessu máli, og það er af þeim ástæðum, að þeir telja, að slysahætta geti orðið, þegar breyt. verður gerð, og telja breyt. óþarfa að öðru leyti. Vitanlega þurfum við að taka tillit til þess, sem bifreiðarstjórar segja í þessu máli, en verðum þó hér að mynda okkur skoðun á því, hvað heppilegast er, og haga okkur eftir því, og eins og ég hefi bent á, held ég, að ýmsir álíti breyt. æskilega. Bifreiðarstjórarnir tala um slysahættuna, og svo er talað um skattana. Það hefir komið fram hjá bifreiðarstjórum, að þegar þeir hafa komið til útlanda og breytt um, hafa þeir verið mjög fljótir að átta sig á þessu. Enda hefir það komið í ljós þar, sem þessi breyt. hefir verið gerð, og hefir það verið gert í fjöldamörgum þjóðlöndum, að reynslan hefir sýnt, að slysahættan hefir ekki vaxið um leið og breyt. var gerð. Þá er bent á, að hægri umferð hafi ekkert fram yfir þá vinstri, enda engin rök fyrir því í frv., að svo sé, og held ég það rétt. En á það má benda, að hægri umferð hefir verulega kosti fram yfir vinstri umferð, þegar þess er gætt, að þessi regla er að verða alþjóðaregla og öll ökutæki þess vegna framleidd með það fyrir augum, og þess vegna má benda á, eins og margir hafa tekið fram, að erfitt verði að fá ökutæki, sem miðuð séu við vinstri umferð, eftir að svo er komið, að þetta er orðin alþjóðaregla. Náttúrlega framleiða Bretar ökutæki bæði fyrir vinstri og hægri umferð, en enn sem komið er höfum við keypt ökutæki okkar annarstaðar, þar sem bezt hefir verið að verði og gæðum. En það má geta þess, að þegar hægri umferð hefir verið upp tekin, getur þetta breytzt í það horf, að erfitt verði að fá ökutæki, sem sniðin séu við þessa umferðarreglu okkar. Að vísu yrðu slík ökutæki framleidd fyrir England, sem hefir vinstri umferð, en þau lönd, sem tilheyra brezka heimsveldinu, hafa breytt til og tekið upp hægri handar umferð, svo að það er ekki nema England eitt, sem heldur þessari reglu. Það er ekki hægt að neita því, að það er verulegur kostur við hægri umferð, að það sýnist allt stefna að því, að hún verði alstaðar tekin upp. Hún gildir á sjónum og í lofti, og það hefir verið mikið starfað að því, að þessi regla verði tekin upp á landi, og allt stefnir að því, hvað sem Englendingum líður, að þetta verði alþjóðaregla. Viðvíkjandi kostnaðinum er það að segja, að hann er áætlaður að verða 30 þúsund krónur eins og nú er, en mundi verða miklu meiri síðar. Það eru allar líkur til þess, að byrjað verði á því að undirbúa rafknúða vagna milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Það er félag, sem hefir sótt um það. Þessir vagnar eru mikið notaðir í Mið-Evrópu og víðar. Ef slíkir vagnar yrðu teknir upp hér, lokuðust smám saman meira og meira leiðirnar fyrir okkur til þess að taka upp hægri umferð, því að kostnaðurinn yrði svo stórkostlegur. Það hefir ekki staðið annað fyrir þessari breyt. í Svíþjóð en kostnaðurinn. Hann er talinn verða um 14 millj. sænskra króna. Ennþá er lítið til hér af þessum stóru vögnum og þess vegna verðum við að gera breyt. núna, ef við ætlum að gera hana á annað borð. vegamálastjóri hefir réttilega álitið, að ef það ætti að taka upp þessa reglu 1. janúar 1941, verði hægt að taka upp umferðarkennslu í barnaskólunum að haustinu og kenna til nýárs. Um það leyti er lítil umferð á vegum úti og mundi sá tími notast til þess að koma þessu í horf, svo að menn verði búnir að venja sig við það, þegar umferðin eykst með vorinu. Þetta er mjög gætilega útreiknað hjá honum, og er sennilegt, að breyt. geti með þessu móti farið fram án þess að verða tilfinnanleg. Hann telur, að vegna þess, hve lítið er af bifreiðum í umferð að vetrinum, ætti að vera auðvelt að gera þessa breyt. án þess að það valdi truflunum. Þannig mætti gera þessa breyt. um næstu áramót án þess að það yrði tilfinnanlegt.

Ég er fyrir mitt leyti á þeirri skoðun, að rétt sé að gera þessa breyt., því að þótt hér komi margir Englendingar, má á það benda jafnframt, að hingað til hefir það verið svo, að miklu fleiri hafa komið frá öðrum löndum, sem hafa haft með sér bifreiðar á ferðum sínum, og mun svo verða framvegis. Einnig hafa Íslendingar, sem farið hafa til útlanda með bifreiðar, meira ferðast til Norðurlanda og Mið-Evrópu en til Englands.

Þegar allt þetta er athugað og það, hve lítill kostnaður fylgir breyt. þessari núna, virðist mér, að þau rök, sem vegamálastjóri ber fram, en hann hefir athugað þetta mál frá því árið 1935, öll mæla með því, að rétt sé að gera breyt. þessa núna. Svo ætla ég ekki að ræða frekar um þetta mál, því að ég geri ráð fyrir því, að hv. þm. hafi myndað sér um það skoðun og fengið fyrir því þau rök, sem þeir telja nægja.