03.04.1940
Efri deild: 28. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í B-deild Alþingistíðinda. (795)

61. mál, umferðarlög

*Árni Jónsson:

Herra forseti! Ég er nú alveg sammála hæstv. forsrh. um, að það stafi ákaflega lítil slysahætta af þessari breyt., og dró ég það ekki fram sem rök fyrir mínu máli, þegar ég mælti gegn breyt. En einmitt það, að engin slysahætta er af þessu, gerir það að verkum, að þau rök, sem formælendur þessarar breyt. hafa fært fram fyrir henni, sem sé heimsóknir útlendinga, sem vanir eru hægri akstri, og ferðir Íslendinga, sem vanir eru vinstri akstri, úti, falla um sjálf sig, og tel ég þess vegna engu máli skipta, hvor umferðin er höfð. Hvað viðvíkur því að fá bifreiðar, sem útbúnar séu fyrir vinstri umferð, held ég, að óttinn um það hafi ekki við nein rök að styðjast. Það er fyrst og fremst, að Bretar framleiða sína vagna sjálfir, og er ekki ótrúlegt, að við gætum fengið einn og einn vagn þaðan, því að þótt bifreiðanotkun sé hér mikil, er hún lítil í samanburði við það, sem er í stórum löndum. En auk þess sem Bretar framleiða sínar bifreiðar sjálfir, flytja þeir inn bifreiðar, sem eru fyrir vinstri akstur, og ættum við að geta krækt í eina og eina af þeim. Þótt þessi regla sé á sjó og í lofti, er engin hætta á því, að bifreið rekist á togara úti á sviði, né heldur því, að togari rekist á bifreið í Austurstræti, og að bifreiðar rekist á flugflotann, skulum við ekki gera ráð fyrir. Að þetta er að verða að alþjóðareglu, kemur til af því, að þetta hefir orðið að reglu á meginlandinu, þar sem landamæri liggja saman. Hinsvegar, þar sem löndin eru einangruð, er engin ástæða til að taka þetta upp, og þess vegna er það, að Englendingar hafa ekki tekið upp þessa reglu.

Viðvíkjandi þessum rafknúðu vögnum, sem talað var um, að í ráði væri að fá, skil ég ekki annað en auðvelt mundi vera að fá þá fyrir vinstri umferð. (Forsrh.: Má ég taka fram í: Breytingin er erfiðari þegar þeir eru komnir).

Snúum svo að því, að nauðsynlegt sé að samþykkja breyt. vegna kennslu á umferðarreglum í skólum. Það á bara að taka upp kennslu í vinstri umferð og hana er heldur ekkert erfiðara að kenna en hægri umferð. En til kostnaðarins hefir ekki verið tekið nægilegt tillit, og hygg ég, að vegna þess, hve hann er mikill, ættum við ekki að gera þessa breyt. að svo stöddu.