12.03.1940
Neðri deild: 15. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í B-deild Alþingistíðinda. (804)

60. mál, bifreiðalög

*Frsm. (Gísli Sveinsson):

Eins og tekið er fram í grg. frv., er það flutt eftir beiðni hæstv. dómsmrh. Þess er að geta, að vegamálastjóri hefir yfirfarið frv. vandlega og samið skýringar þær, sem grg. getur um.

Þetta frv. hefir áður komið fyrir Alþ. og er svo glögglega skýrt í grg., að óþarfi er að rifja það upp nú sérstaklega. Eins og hv. dm. muna, var fyrir nokkrum árum flutt frv. til bifreiðalaga, en meðferð þess náði ekki lengra en svo, að það dagaði uppi, og lá það síðan niðri um stutt árabil. Frv. var svo síðast flutt á þinginu 1938 af samgmn. Ed., en komst þá aðeins til 2. umr. í d. Nú er frv. komið fyrir Alþ. í þriðja skipti, og hefir það verið yfirfarið af þeim aðilum, sem geta komið til greina að eiga nokkru um það að ráða. Ég tel þessar breyt., sem hér er farið fram á, allar til bóta, og tel svo frá þeim gengið, að þær megi lögleiða bæði hvað snertir efni og form. Nú vil ég fyrir hönd samgmn. leggja til, að frv. nái fram að ganga, en tel ekki þörf á, að það fari aftur til n.